Erlent

Segir flugliða United hafa gert rétt þegar læknir var dreginn frá borði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Illa var farið með lækninn.
Illa var farið með lækninn.
Forstjóri United flugfélagsins hefur varið ákvörðun flugliða um að láta draga farþega frá borði eftir að flugvél félagsins var yfirbókuð. BBC greinir frá.

Í bréfi til starfsmanna United segir forstjórinn að flugliðarnir hafi fylgt öllum réttum ferlum í málinu. Myndbönd af atvikinu hefur verið dreift á samfélagsmiðlum þar sem sjá má öryggisverði draga farþegann frá borði.

Flugvélin var yfirbókuð og vildi flugfélagið fá fjóra farþega til þess að yfirgefa vélina áður en að lagt var af stað frá Chicago til Louisville í Bandaríkjunum.

Farþeginn sem um ræðir neitaði að yfirgefa flugvélina og segir forstjóri United að flugliðarnir hafi átt engan annan kost en að kalla á öryggisverði til þess að fjarlægja farþegann.

Ástæða þess að flugvélin var yfirbókuð var sú að fjórir starfsmenn United þyrftu að fljúga með vélinni en þeir áttu að vera í áhöfn í flugi United frá Louisville síðar um daginn.

Enginn bauðst til þess að yfirgefa flugvélina og voru því fjórir valdir af handahófi. Maðurinn, sem er læknir, var einn af þeim sem var valinn en hann neitaði að fara frá borði.

Sagðist hann nauðsynlega þurfa að hitta sjúklinga sína. Forstjóri flugfélagsins virðist þó ekki sjá eftir miklu.

„Ég harma það að þessar aðstæður hafi komið upp en ég tek það sérstaklega fram að ég stend við bakið á ykkur öll og vil hrósa ykkur fyrir hvernig þið leggið ykkur fram um að tryggja það að við fljúgum á réttan hátt,“ segir í bréfi forstjórans til starfsmanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×