Erlent

Sprengjuárásin í Dortmund: Talinn hafa tengsl við ISIS

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einn leikmaður Dortmund slasaðist í árásinni.
Einn leikmaður Dortmund slasaðist í árásinni. Vísir/Getty
Saksóknarar í Þýskalandi hafa ekki fundið nein sönnunargögn sem bendla manninn sem er í haldi við sprengjuárásina á liðsrútu knattspynuliðsins Borussia Dortmund á þriðjudag. BBC greinir frá.

Engu að síður telja saksóknarar að maðurinn sé meðlimur í samtökum sem tengjast hryðjuverkasamtökunum ISIS. Maðurinn var handtekinn í gær og hefur nafngreindur sem Abdul Beset A, 26 ára karlmaður.

Margt bendir til þess að hann hafi leitt sveit ISIS-manna í Írak árið 2014 og skipulagt þar mannrán og morð. Saksóknarar segja hann hafa ferðast frá Tyrklandi til Þýskalands árið 2016.

Hann hafi haldið tengslum sínum við meðlimi ISIS. Saksóknarnar hafa farið fram á að maðurinn verði settur í gæsluvarðhald og er reiknað með að hann verði formlega handtekinn vegna árásarinnar á næstu dögum.

Alls voru þrjár sprengjur sprengdar er lið Borussia Dortmund var á leið á heimavöll sinn til þess að keppa í átta liða úrslitum Meistarardeildar Evrópu í knattspyrnu gegn liði Monaco. Marc Bartra, leikmaður liðsins, slasaðist lítillega í árásinni en mildi þykir að ekki hafið verr.

Leiknum var frestað um einn dag og fór svo að Borussia Dortmund tapaði gegn Monaco. Hafa þjálfarar og leikmenn liðsins harðlega gagnrýnt knattspyrnuyfirvöld í Evrópu fyrir að hafa látið leikinn fara fram, svo skömmu eftir árásina á rútuna.


Tengdar fréttir

Telja árásina á rútu Dortmund hryðjuverk

Saksóknarar í Þýskalandi telja að sprengjuárásin á rútu knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund hafi verið hryðjuverk. Þá greindi lögregla frá því að hún hefði handtekið mann með tengsl við herskáa íslamista í tengslum við árásina.

Málmhlutum komið fyrir í einni sprengjunni

Lögregla í Þýskalandi hefur handtekið einn í tengslum við sprengjuárásina á liðsrútu knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund í gær. Málmræmur voru notaðar í eina af sprengjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×