Heimskulegasta skeyti allra tíma Stefán Pálsson skrifar 15. apríl 2017 13:00 Fyrr í þessum mánuði var þess minnst að hundrað ár eru liðin frá því að Bandaríkin sögðu Þjóðverjum stríð á hendur og hófu þannig beina þátttöku sína í fyrri heimsstyrjöldinni. Stríðsyfirlýsingin þann sjötta apríl 1917 átti sér allnokkurn aðdraganda og kom ekki sérstaklega á óvart. Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti tryggði sér endurkjör í kosningunum síðla árs 1916 með slagorðinu: „Hann hélt okkur utan við stríðið!“ Síðar hafa sagnfræðingar þó sýnt fram á að Wilson hafði löngu fyrr lagt drög að stríðsþátttöku Bandaríkjamanna og vann hörðum höndum að því að undirbúa jarðveginn heima fyrir. Engum blöðum er um það að fletta að tilkoma bandaríska herliðsins skipti sköpum varðandi úrslit stríðsins. Staðan á vesturvígstöðvunum var löngu orðin þrátefli, þar sem hvorugur aðilinn hafði mátt til að brjóta niður varnir hins, á meðan stríðsþreytan jókst jafnt og þétt í herbúðum beggja. Með bandaríska liðsaukanum komu nýir og óþreyttir hermenn, en meira munaði um óheftan aðgang að hergögnum, hráefnum og hvers kyns varningi á meðan vöru- og eldsneytisskortur Þjóðverja varð sífellt meiri. Það var þessi skortur sem að lokum knúði þýska herinn til aðgerða sem hlutu að draga Bandaríkin inn í stríðið. Þótt Bandaríkjamenn hafi átt að heita hlutlausir í heimsstyrjöldinni fram á árið 1917, var ljóst hvorum megin samúð stjórnvalda í Washington lá. Sterk söguleg tengsl voru milli Breta og Bandaríkjamanna, einkum hins ráðandi hóps kristinna, hvítra íbúa af engilsaxneskum uppruna. Í aðdraganda styrjaldarinnar og fyrstu mánuðina, mátti það sjónarmið heita ríkjandi að Evrópubúar væru stríðsóðir og ekki viðbjargandi. Stríðið væri öllum aðilum álíka mikið að kenna og best væri að koma ekki nálægt þessum hildarleik. Með tímanum sveigðist orðræðan yfir í að margir hefðu að sönnu gert mistök, en ábyrgð Þjóðverja væri þó sýnu mest. Litríkar og í mörgum tilvikum upplognar frásagnir af ódæðisverkum þýska hersins í hlutlausa smáríkinu Belgíu höfðu djúpstæð áhrif á almenningsálitið og skipti þar miklu máli að eigendur margra helstu dagblaða Bandaríkjanna voru einarðir stuðningsmenn Breta. Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur hefur bent á að svipuð þróun átti sér stað á Íslandi, þar sem samúð íslensku blaðanna með andstæðingum Þjóðverja jókst jafnt og þétt, enda allar þær fregnir sem til landsins bárust rækilega ritskoðaðar.Skipsskaðar og hryðjuverk Ýmsir atburðir urðu til þess að snúa almenningsálitinu í Bandaríkjunum enn frekar Þjóðverjum í óhag. Vorið 1915 sökktu Þjóðverjar án viðvörunar breska farþegaskipinu Lúsitaníu, þar sem um 1.200 manns fórust, þar á meðal fjöldi Bandaríkjamanna og ýmsir nafntogaðir einstaklingar. Árásin þótti einstaklega grimmileg og í augljósri andstöðu við alþjóðalög, þótt Þjóðverjar gætu raunar tínt til einhverjar málsbætur, svo sem að allstór vopnasending hefði verið um borð í skipinu og það því getað talist lögmætt skotmark í hernaði. Herská öfl í Bandaríkjunum kröfðust tafarlausrar stríðsyfirlýsingar, en stjórn Wilsons neitaði að verða við því enda hétu Þjóðverjar að draga nokkuð úr kafbátahernaði sínum. Tvær meiriháttar sprengingar í sprengiefnageymslum í New Jersey, sú fyrri um mitt ár 1916 og sú síðari í ársbyrjun 1917, ollu sömuleiðis mikilli reiði í garð Þjóðverja sem kennt var um atvikin. Í báðum tilvikum sprungu í loft upp gríðarstórir sprengiefnafarmar sem senda átti til Bretlands og Rússlands. Fyrri atburðurinn er einkum kunnur í sögunni fyrir þær sakir að sjálf Frelsisstyttan varð fyrir hnjaski í sprengingunni og upp frá því hefur gestum ekki verið hleypt upp í kyndil styttunnar. Böndin bárust þegar að þýskum útsendurum, þótt bent hafi verið á að ýmsir aðrir hópar hafi haft ástæðu til að kveikja í geymslunum til að ná sér niður á Bretum, svo sem írskir og indverskir þjóðernissinnar. Þá komst rannsóknarnefnd að þeirri niðurstöðu árið 1931 að Þjóðverjar hefðu ekki átt hlut að máli í seinni sprengingunni. Það skipti þó litlu máli, því fyrst eftir sprengingarnar velktust fáir í vafa um þátt Þjóðverja í hryðjuverkunum og hefndarþorstinn kviknaði. Þjóðverjar vildu vitaskuld mikið til vinna að halda Bandaríkjamönnum fyrir utan stríðið, en með tímanum tóku þó önnur atriði að vega þyngra í ákvarðanatökunni. Hafnbann Breta á Þjóðverja hélt að langmestu leyti öll styrjaldarárin, sem takmarkaði mjög alla möguleika þeirra til hráefnisöflunar, sem bitnaði bæði á stríðsrekstrinum og almennum borgurum. Það að brjótast undan hafnbanninu og jafnframt að hindra vöruflutninga til Bretlands varð því sífellt meira forgangsatriði, hvað sem það kostaði. Þann fyrsta febrúar 1917 ákváðu Þjóðverjar að hefja ótakmarkaðan kafbátahernað. Sú ákvörðun hlaut í raun að leiða til beinnar stríðsþátttöku Bandaríkjamanna, sem ítrekað höfðu komið þeim skilaboðum á framfæri að slíkur hernaður yrði ekki liðinn. Niðurstaða þýska hersins var þó sú að illskárra væri að fá bandaríska hermenn í stríðið en að þola áfram drottnunarstöðu Breta á höfunum. Sem fyrr segir er erfitt að ímynda sér að Bandaríkin hefðu lengi staðið utan styrjaldarinnar eftir að kafbátahernaðurinn hófst fyrir alvöru. Örvæntingarfull tilraun þýsku stjórnarinnar til að stuðla að því, snerist hins vegar rækilega í höndunum á henni og gulltryggði að Wilson tókst að fá stuðning þingsins fyrir stríðsþátttökunni. Þetta sjálfsmark Þjóðverja var í formi leyniskeytis: Zimmermann-skeytisins svokallaða.Brugguð launráð Skeytið er kennt við Arthur Zimmermann, þáverandi utanríkisráðherra Þýskalands og var sent nítjánda janúar 1917, fáeinum dögum áður en þýsku kafbátahersveitirnar létu til skarar skríða. Það fór eftir ritsímalínum sem einvörðungu voru ætlaðar fyrir bandarískan diplómatapóst og var stílað á þýska sendiherrann í Mexíkóborg. Innihald þess var reyfarakennt: að kanna hvort Mexíkóstjórn – ef Bandaríkin segðu Þjóðverjum stríð á hendur – væri reiðubúin til að mynda bandalag með Þýskalandi og ráðast á Bandaríkin. Samkvæmt skeytinu var hugmyndin að fá Japani með í þetta skringilega hernaðarbandalag. Japan myndi að launum hljóta ýmis landsvæði í Asíu en Mexíkó myndi endurheimta ríkin Texas, Arisóna og Nýju-Mexíkó. Erfitt er að túlka tillögur þessar sem annað en sambland af örvæntingu og barnaskap. Hagur Þjóðverja af hugmyndinni var augljós, þar sem Bandaríkjaher yrði líklega of upptekinn heima fyrir að berjast við Mexíkóa til að vera aflögufær um herlið til Evrópu. Hvað Mexíkóstjórn átti að græða á plottinu var hins vegar erfiðara að sjá. Þýskaland gat engri hernaðaraðstoð lofað, heldur einungis pólitískum og fjárhagslegum stuðningi. Alls var óljóst hversu miklir borgunarmenn Þjóðverjar yrðu fyrir loforðunum, jafnvel þótt þeim tækist að vinna stríðið í Evrópu. Þá var Bandaríkjaher miklu sterkari en sá mexíkóski, svo innrás hefði verið feigðarflan. Engar líkur voru á að stjórnvöld í Mexíkó féllust á svo fjarstæðukennda ráðagerð, svo það eitt að senda skeytið mátti teljast misráðið. Verra var þó að breska leyniþjónustan fylgdist með öllu saman. Þýska stjórnin sendi leyniskeytið áhyggjulaus eftir ritsímalínum bandarísku utanríkisþjónustunnar og á dulmáli sem talið var óleysanlegt. Í Berlín gerðu menn sér hins vegar ekki grein fyrir því að bæði hleruðu Bretar samskiptin og höfðu náð að verða sér úti um dulmálslykilinn. Í nokkrar vikur klóruðu Bretar sér í kollinum hvað gera skyldi við þessar safaríku upplýsingar. Zimmermann-skeytið var augljóst pólitískt sprengiefni, en hvernig mátti ljóstra því upp án þess að Þjóðverjar uppgötvuðu að búið væri að ráða dulmálið og Bandaríkjamenn kæmust að njósnastarfseminni? Að lokum tókst þeim að púsla saman sæmilega trúverðugri sögu um að breskum njósnara hefði tekist að stela skjalinu í Mexíkóborg. Bandaríkjastjórn beið ekki lengi með að gera leyniskjalið opinbert og fordæma harðlega þessi svikráð Þjóðverja, sem jöðruðu við stríðsyfirlýsingu. Andstæðingar þess að Bandaríkin drægjust inn í stríðið brugðust hins vegar við með því að vísa skjalinu á bug sem augljósri fölsun Breta. Hölluðust margir að því að sú væri raunin, enda áformin sem lýst var í skeytinu slík að ótrúlegt var að þýskur utanríkisráðherra hefði látið slíkt frá sér fara. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kaus Arthur Zimmermann hins vegar að staðfesta tilvist skeytisins í umræðum í þýska þinginu í byrjun mars, þegar hann var spurður út í málið. Þótt sannsögli sé vissulega dyggð, getur þessi hreinskilni ekki talist mjög skynsamleg. Með játningunni gaf utanríkisráðherrann Bandaríkjastjórn frábært áróðursvopn til að tryggja stuðning við að senda herlið til Evrópu. Fáeinum vikum síðar kom formlega stríðsyfirlýsingin og lok fyrri heimsstyrjaldarinnar voru í raun ráðin. Saga til næsta bæjar Mest lesið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Lífið Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar Lífið Þau eru tilnefnd fyrir verstu kvikmyndagerðina Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Lífið Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Lífið Fleiri fréttir Stærsta þorrablót landsins Fann ástina og setur íbúðina á sölu Fallegustu bækur í heimi eru í Garðabæ Brilljant hugmyndir fyrir bóndadaginn Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Sveitapiltur úr Tungunum stýrir gullnámu á slóðum Eiríks rauða Bleikur draumur í Hafnarfirði Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Snerting ekki tilnefnd til Óskars Í beinni: Verður Snerting tilnefnd til Óskars? Gervais minnist hundsins úr After Life „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Harry fær afsökunarbeiðni Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Kennir óprúttnum aðila um Instagram aðförina að eiginkonunni Meintur stuldur á borð RÚV Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Fyrsta samfélagsmiðlastjarna Íslands: „Ert þú að segja að ég sé feitur?“ Heiðar Logi og Anný orðin foreldrar Guðni og Margrét selja svansvottaða eign á Selfossi „Að maður geti gert allt sjálfur hefur kennt mér margt“ Sjá meira
Fyrr í þessum mánuði var þess minnst að hundrað ár eru liðin frá því að Bandaríkin sögðu Þjóðverjum stríð á hendur og hófu þannig beina þátttöku sína í fyrri heimsstyrjöldinni. Stríðsyfirlýsingin þann sjötta apríl 1917 átti sér allnokkurn aðdraganda og kom ekki sérstaklega á óvart. Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti tryggði sér endurkjör í kosningunum síðla árs 1916 með slagorðinu: „Hann hélt okkur utan við stríðið!“ Síðar hafa sagnfræðingar þó sýnt fram á að Wilson hafði löngu fyrr lagt drög að stríðsþátttöku Bandaríkjamanna og vann hörðum höndum að því að undirbúa jarðveginn heima fyrir. Engum blöðum er um það að fletta að tilkoma bandaríska herliðsins skipti sköpum varðandi úrslit stríðsins. Staðan á vesturvígstöðvunum var löngu orðin þrátefli, þar sem hvorugur aðilinn hafði mátt til að brjóta niður varnir hins, á meðan stríðsþreytan jókst jafnt og þétt í herbúðum beggja. Með bandaríska liðsaukanum komu nýir og óþreyttir hermenn, en meira munaði um óheftan aðgang að hergögnum, hráefnum og hvers kyns varningi á meðan vöru- og eldsneytisskortur Þjóðverja varð sífellt meiri. Það var þessi skortur sem að lokum knúði þýska herinn til aðgerða sem hlutu að draga Bandaríkin inn í stríðið. Þótt Bandaríkjamenn hafi átt að heita hlutlausir í heimsstyrjöldinni fram á árið 1917, var ljóst hvorum megin samúð stjórnvalda í Washington lá. Sterk söguleg tengsl voru milli Breta og Bandaríkjamanna, einkum hins ráðandi hóps kristinna, hvítra íbúa af engilsaxneskum uppruna. Í aðdraganda styrjaldarinnar og fyrstu mánuðina, mátti það sjónarmið heita ríkjandi að Evrópubúar væru stríðsóðir og ekki viðbjargandi. Stríðið væri öllum aðilum álíka mikið að kenna og best væri að koma ekki nálægt þessum hildarleik. Með tímanum sveigðist orðræðan yfir í að margir hefðu að sönnu gert mistök, en ábyrgð Þjóðverja væri þó sýnu mest. Litríkar og í mörgum tilvikum upplognar frásagnir af ódæðisverkum þýska hersins í hlutlausa smáríkinu Belgíu höfðu djúpstæð áhrif á almenningsálitið og skipti þar miklu máli að eigendur margra helstu dagblaða Bandaríkjanna voru einarðir stuðningsmenn Breta. Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur hefur bent á að svipuð þróun átti sér stað á Íslandi, þar sem samúð íslensku blaðanna með andstæðingum Þjóðverja jókst jafnt og þétt, enda allar þær fregnir sem til landsins bárust rækilega ritskoðaðar.Skipsskaðar og hryðjuverk Ýmsir atburðir urðu til þess að snúa almenningsálitinu í Bandaríkjunum enn frekar Þjóðverjum í óhag. Vorið 1915 sökktu Þjóðverjar án viðvörunar breska farþegaskipinu Lúsitaníu, þar sem um 1.200 manns fórust, þar á meðal fjöldi Bandaríkjamanna og ýmsir nafntogaðir einstaklingar. Árásin þótti einstaklega grimmileg og í augljósri andstöðu við alþjóðalög, þótt Þjóðverjar gætu raunar tínt til einhverjar málsbætur, svo sem að allstór vopnasending hefði verið um borð í skipinu og það því getað talist lögmætt skotmark í hernaði. Herská öfl í Bandaríkjunum kröfðust tafarlausrar stríðsyfirlýsingar, en stjórn Wilsons neitaði að verða við því enda hétu Þjóðverjar að draga nokkuð úr kafbátahernaði sínum. Tvær meiriháttar sprengingar í sprengiefnageymslum í New Jersey, sú fyrri um mitt ár 1916 og sú síðari í ársbyrjun 1917, ollu sömuleiðis mikilli reiði í garð Þjóðverja sem kennt var um atvikin. Í báðum tilvikum sprungu í loft upp gríðarstórir sprengiefnafarmar sem senda átti til Bretlands og Rússlands. Fyrri atburðurinn er einkum kunnur í sögunni fyrir þær sakir að sjálf Frelsisstyttan varð fyrir hnjaski í sprengingunni og upp frá því hefur gestum ekki verið hleypt upp í kyndil styttunnar. Böndin bárust þegar að þýskum útsendurum, þótt bent hafi verið á að ýmsir aðrir hópar hafi haft ástæðu til að kveikja í geymslunum til að ná sér niður á Bretum, svo sem írskir og indverskir þjóðernissinnar. Þá komst rannsóknarnefnd að þeirri niðurstöðu árið 1931 að Þjóðverjar hefðu ekki átt hlut að máli í seinni sprengingunni. Það skipti þó litlu máli, því fyrst eftir sprengingarnar velktust fáir í vafa um þátt Þjóðverja í hryðjuverkunum og hefndarþorstinn kviknaði. Þjóðverjar vildu vitaskuld mikið til vinna að halda Bandaríkjamönnum fyrir utan stríðið, en með tímanum tóku þó önnur atriði að vega þyngra í ákvarðanatökunni. Hafnbann Breta á Þjóðverja hélt að langmestu leyti öll styrjaldarárin, sem takmarkaði mjög alla möguleika þeirra til hráefnisöflunar, sem bitnaði bæði á stríðsrekstrinum og almennum borgurum. Það að brjótast undan hafnbanninu og jafnframt að hindra vöruflutninga til Bretlands varð því sífellt meira forgangsatriði, hvað sem það kostaði. Þann fyrsta febrúar 1917 ákváðu Þjóðverjar að hefja ótakmarkaðan kafbátahernað. Sú ákvörðun hlaut í raun að leiða til beinnar stríðsþátttöku Bandaríkjamanna, sem ítrekað höfðu komið þeim skilaboðum á framfæri að slíkur hernaður yrði ekki liðinn. Niðurstaða þýska hersins var þó sú að illskárra væri að fá bandaríska hermenn í stríðið en að þola áfram drottnunarstöðu Breta á höfunum. Sem fyrr segir er erfitt að ímynda sér að Bandaríkin hefðu lengi staðið utan styrjaldarinnar eftir að kafbátahernaðurinn hófst fyrir alvöru. Örvæntingarfull tilraun þýsku stjórnarinnar til að stuðla að því, snerist hins vegar rækilega í höndunum á henni og gulltryggði að Wilson tókst að fá stuðning þingsins fyrir stríðsþátttökunni. Þetta sjálfsmark Þjóðverja var í formi leyniskeytis: Zimmermann-skeytisins svokallaða.Brugguð launráð Skeytið er kennt við Arthur Zimmermann, þáverandi utanríkisráðherra Þýskalands og var sent nítjánda janúar 1917, fáeinum dögum áður en þýsku kafbátahersveitirnar létu til skarar skríða. Það fór eftir ritsímalínum sem einvörðungu voru ætlaðar fyrir bandarískan diplómatapóst og var stílað á þýska sendiherrann í Mexíkóborg. Innihald þess var reyfarakennt: að kanna hvort Mexíkóstjórn – ef Bandaríkin segðu Þjóðverjum stríð á hendur – væri reiðubúin til að mynda bandalag með Þýskalandi og ráðast á Bandaríkin. Samkvæmt skeytinu var hugmyndin að fá Japani með í þetta skringilega hernaðarbandalag. Japan myndi að launum hljóta ýmis landsvæði í Asíu en Mexíkó myndi endurheimta ríkin Texas, Arisóna og Nýju-Mexíkó. Erfitt er að túlka tillögur þessar sem annað en sambland af örvæntingu og barnaskap. Hagur Þjóðverja af hugmyndinni var augljós, þar sem Bandaríkjaher yrði líklega of upptekinn heima fyrir að berjast við Mexíkóa til að vera aflögufær um herlið til Evrópu. Hvað Mexíkóstjórn átti að græða á plottinu var hins vegar erfiðara að sjá. Þýskaland gat engri hernaðaraðstoð lofað, heldur einungis pólitískum og fjárhagslegum stuðningi. Alls var óljóst hversu miklir borgunarmenn Þjóðverjar yrðu fyrir loforðunum, jafnvel þótt þeim tækist að vinna stríðið í Evrópu. Þá var Bandaríkjaher miklu sterkari en sá mexíkóski, svo innrás hefði verið feigðarflan. Engar líkur voru á að stjórnvöld í Mexíkó féllust á svo fjarstæðukennda ráðagerð, svo það eitt að senda skeytið mátti teljast misráðið. Verra var þó að breska leyniþjónustan fylgdist með öllu saman. Þýska stjórnin sendi leyniskeytið áhyggjulaus eftir ritsímalínum bandarísku utanríkisþjónustunnar og á dulmáli sem talið var óleysanlegt. Í Berlín gerðu menn sér hins vegar ekki grein fyrir því að bæði hleruðu Bretar samskiptin og höfðu náð að verða sér úti um dulmálslykilinn. Í nokkrar vikur klóruðu Bretar sér í kollinum hvað gera skyldi við þessar safaríku upplýsingar. Zimmermann-skeytið var augljóst pólitískt sprengiefni, en hvernig mátti ljóstra því upp án þess að Þjóðverjar uppgötvuðu að búið væri að ráða dulmálið og Bandaríkjamenn kæmust að njósnastarfseminni? Að lokum tókst þeim að púsla saman sæmilega trúverðugri sögu um að breskum njósnara hefði tekist að stela skjalinu í Mexíkóborg. Bandaríkjastjórn beið ekki lengi með að gera leyniskjalið opinbert og fordæma harðlega þessi svikráð Þjóðverja, sem jöðruðu við stríðsyfirlýsingu. Andstæðingar þess að Bandaríkin drægjust inn í stríðið brugðust hins vegar við með því að vísa skjalinu á bug sem augljósri fölsun Breta. Hölluðust margir að því að sú væri raunin, enda áformin sem lýst var í skeytinu slík að ótrúlegt var að þýskur utanríkisráðherra hefði látið slíkt frá sér fara. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kaus Arthur Zimmermann hins vegar að staðfesta tilvist skeytisins í umræðum í þýska þinginu í byrjun mars, þegar hann var spurður út í málið. Þótt sannsögli sé vissulega dyggð, getur þessi hreinskilni ekki talist mjög skynsamleg. Með játningunni gaf utanríkisráðherrann Bandaríkjastjórn frábært áróðursvopn til að tryggja stuðning við að senda herlið til Evrópu. Fáeinum vikum síðar kom formlega stríðsyfirlýsingin og lok fyrri heimsstyrjaldarinnar voru í raun ráðin.
Saga til næsta bæjar Mest lesið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Lífið Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar Lífið Þau eru tilnefnd fyrir verstu kvikmyndagerðina Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Lífið Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Lífið Fleiri fréttir Stærsta þorrablót landsins Fann ástina og setur íbúðina á sölu Fallegustu bækur í heimi eru í Garðabæ Brilljant hugmyndir fyrir bóndadaginn Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Sveitapiltur úr Tungunum stýrir gullnámu á slóðum Eiríks rauða Bleikur draumur í Hafnarfirði Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Snerting ekki tilnefnd til Óskars Í beinni: Verður Snerting tilnefnd til Óskars? Gervais minnist hundsins úr After Life „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Harry fær afsökunarbeiðni Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Kennir óprúttnum aðila um Instagram aðförina að eiginkonunni Meintur stuldur á borð RÚV Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Fyrsta samfélagsmiðlastjarna Íslands: „Ert þú að segja að ég sé feitur?“ Heiðar Logi og Anný orðin foreldrar Guðni og Margrét selja svansvottaða eign á Selfossi „Að maður geti gert allt sjálfur hefur kennt mér margt“ Sjá meira