Innlent

Icelandair ekki gert að greiða týndan iPhone

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stúlkan gleymdi símanum sínum í sætisvasa en mátti ekki fara aftur um borð til þess að sækja hann.
Stúlkan gleymdi símanum sínum í sætisvasa en mátti ekki fara aftur um borð til þess að sækja hann. Vísir/Vilhelm
Samgöngustofa hefur hafnað því að Icelandair verði gert að greiða skaðabætur vegna iPhone-síma sem tólf ára stúlka glataði um borð í flugvél flugfélagsins á leið frá Washington til Keflavíkur.

Skömmu eftir lendingu uppgötvaði stúlkan að hún hafði gleymt símanum í sætisvasa þegar hún fór frá borði. Henni var hins vegar ekki heimilað að fara aftur um borð til að leita að símanum en var þess í stað bent á upplýsingaborð.

Síminn fannst aldrei og kvartaði faðir stúlkunnar til Samgöngustofu og krafðist skaðabóta frá Icelandair. Að sögn kvartanda fékk stúlkan engar upplýsingar eða svör eftir að hún tilkynnti um tap símans.

Ekki heimilt að hleypa farþega aftur um borðIcelandair hafnaði skaðabótakröfunni á þeim grundvelli að af öryggisástæðum væri ekki heimilt að hleypa farþegum aftur um borð eftir að þeir hafa farið frá borði.

Þá sé einnig tekið fram í flutningsskilmálum Icelandair að flugfélagið sé ekki ábyrgt fyrir handfarangri, nema farangurinn týnist vegna vanrækslu flugrekanda.

Það hafi hins vegar ekki verið tilfellið að þessu sinni þar sem farþeginn hafi týnt símanum sjálf, tjónið megi því eingöngu rekja til eigin sakar farþegans.

Í ákvörðun Samgöngustofu segir að ekkert liggi fyrir um að höfnun flugliða Icelandair á því að hleypa stúlkunni aftur um borð hafi orsakað tjón hennar. Kröfunni var því hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×