Erlent

Sænska lögreglan staðfestir þjóðerni hinna látnu og segir rannsókn miða vel

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fórnarlamba árásarinnar var minnst.
Fórnarlamba árásarinnar var minnst. Vísir/EPA
Sænska lögreglan hefur staðfest að tveir Svíar, einn Breti og einn Belgi hafi látið lífið í hryðjuverkaárásinni í Stokkhólmi á föstudag. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar, sem haldinn var klukkan 10:30 í morgun að íslenskum tíma. Búið er að láta aðstandendur hinna látnu vita.

Samkvæmt lögreglunni hafa farið fram rúmlega fimm hundruð yfirheyrslur vegna málsins en lögreglan hefur jafnframt framkvæmt húsleit í nokkrum húsum í borginni. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Europol og Interpol.

Greint hefur verið frá því að 39 ára Úsbeki er í haldi lögreglu en hann er talinn hafa ekið vörubíl á gangandi vegfarendur á helstu verslunargötunni í miðborg Stokkhólms á föstudag.

Á blaðamannafundinum kom meðal annars fram að umræddur maður hafi sótt um hæli í Svíþjóð árið 2014, en þeirri beiðni var hafnað síðastliðið sumar og tekin var ákvörðun um að vísa manninum úr landi.

Lýst var eftir manninum þar sem hann hafði ekki yfirgefið landið og er mál mannsins eitt af 3000 svipuðum málum, hælisleitenda sem ekki hafa hlotið hæli en eru enn í landinu.

Lögreglan telur að maðurinn hafi verið undir áhrifum frá áróðursefni öfgahópa en það er til rannsóknar. Talsmenn lögreglunnar vija ekki staðfesta né neita upplýsingum um að sprengjubúnaður hafi fundist í vörubílnum.

Mikill viðbúnaður er meðal lögreglu víðsvegar um Svíþjóð vegna málsins en talsmenn hennar tóku þó fram að engin hætta sé talin vera á ferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×