Bardagi Sunnu og Martin var rosalegur og kom það fáum á óvart að bardagi þeirra hafi verið valinn bardagi kvöldsins. Sunna vann fyrstu lotuna en Martin kom sterk til baka í annarri lotu og náði þá að vanka Sunnu og héldu margir að okkar kona væri þá búin að vera.
Hún fann samt einhvern ótrúlegan kraft fyrir lokalotuna sem hún vann en hvar fann hún þetta aukabensín á tankinn?
„Ég hugsa til dóttur minnar sem er að horfa og þeirra sem styðja við bakið á mér. Ég hef gengið í gegnum ýmislegt um tíðina. Ætli það séu ekki þær stundir sem maður hugsar um. Þegar maður hefur þurft að standa upp aftur,“ segir Sunna alvarleg og einlæg.
„Ég hef misst pabba minn og systur mína. Ég hugsa til þeirra og sæki kraft til þeirra. Ég hugsa að þau séu að berjast með mér. Ég trúi því að þau séu hjá mér. Þegar á móti blæs þá koma þau sterk inn og berjast fyrir mig ef eitthvað er.“

„Ég hugsa að dyrnar séu að opnast ef þær eru ekki opnar nú þegar. Ég nýt þess samt í tætlur að berjast þar sem ég er núna. Þangað stefndi ég lengi og er að njóta hvers augnabliks.“
Jón Viðar Arnþórsson, þjálfari Sunnu og formaður Mjölnis, hefur gríðarlega trú á sinni konu og telur að hún muni fara langt.
„Ef hún vinnur næstu einn til þrjá bardaga hjá Invicta að þá mun UFC banka á dyrnar. Hún er strax orðin mjög vinsæl hjá Invicta. Það vildu allir taka myndir af henni eftir bardagann. Hún fer fljótt í UFC ef vel gengur þarna,“ segir Jón Viðar og bætir við að hann sé þegar búin að ræða við fólk frá UFC um Sunnu enda þekkir hann vel til þar eftir að hafa verið í horni Gunnars Nelson frá upphafi.
Sjá má fréttina hér að ofan.