Erlent

Byggði fullyrðingar sínar á fulltrúum Hvíta hússins

Kjartan Kjartansson skrifar
Devin Nunes liggur undir gagnrýni fyrir að hlaupa til Trump með upplýsingar úr rannsókn þingnefndar á tengslum samstarfsmanna hans við Rússland.
Devin Nunes liggur undir gagnrýni fyrir að hlaupa til Trump með upplýsingar úr rannsókn þingnefndar á tengslum samstarfsmanna hans við Rússland. Vísir/EPA
Tveir starfsmenn Hvíta hússins voru heimildarmenn formanns leyniþjónustunefndar Bandaríkjaþings fyrir því að bandaríska leyniþjónustan hefði mögulega hlerað samtöl samstarfsmanna Donalds Trump. New York Times hefur þetta eftir ónefndum embættismönnum.

Mikla athygli vakti þegar Devin Nunes, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, lýsti því yfir í síðustu viku að gögn sýndu að leyniþjónustan hefði mögulega hlerað samskipti samstarfsmanna Donalds Trump í kosningabaráttunni í fyrra. Fór hann sérstaklega á fund Trump til að upplýsa hann um þetta.

Í kjölfarið sagðist Trump telja að það réttlætti að einhverju leyti rakalausar fullyrðingar hans um að Barack Obama hafi látið hlera hann í fyrra.

Útspil Nunes var umdeilt því að hann stjórnar rannsókn nefndarinnar á meintum tengslum Trump og félaga við Rússland. Nunes upplýsti félaga sína í þingnefndinni ekki um hvers hann hefði orðið áskynja áður en hann fór með það í fjölmiðla. Hann hefur síðan þverneitað að upplýsa hver veitti honum upplýsingarnar en viðurkenndi þó að það hefði gerst á lóð Hvíta hússins.

Nunes hefur lýst heimildarmönnum sínum sem „uppljóstrurum“ sem hafi greint frá opinberu misferli.

Donald Trump taldi orð Nunes um að gögn væru til um hleranir á samskiptum samstarfsmanna hans réttlættu ásakanir hans á hendur Obama um hleranir.Vísir/EPA
Byrjaði sjálfur að fletta í gegnum leyniskjöl

Nú greinir New York Times frá því að heimildarmenn Nunes hafi verið starfsmaður Þjóðaröryggisráðsins sem Trump skipaði í embætti og lögmaður sem starfar sem ráðgjafi hjá Hvíta húsinu og vann áður fyrir Nunes.

Heimildarmenn blaðsins segja að Ezra Cohen-Watnick, starfsmaður Þjóðaröryggisráðsins, hafi byrjað að blaða í gegnum leynileg skjöl um hleranir á erlendum embættismönnum eftir að Trump setti ásakanir sínar um símhleranir fram á Twitter. Lögmaðurinn hafi svo upplýst Nunes um það sem Cohen-Watnick fann í skjölunum.

Gögnin sem um ræðir eru skjöl um njósnir um erlenda embættismenn sem bandaríska leyniþjónustan hlerar reglulega. New York Times segir að þau sýni að rússneskir embættismenn ræddu um samstarfsmenn Trump og hvernig þeir gætu myndað tengsl við fjölskyldu hans og innsta hring fyrir valdatöku hans.

Fréttavefsíðan Vox segir að draga megi þá ályktun af frétt New York Times að COhen-Watnick hafi verið að slægja skjölin eftir hverju sem er sem gæti stutt fullyrðingar Trump um hleranir.

Jafnvel áður en frétt New York Times birtist í dag átti Nunes í vök að verjast. Demókratar í leyniþjónustunefndinni hafa kallað eftir því að hann dragi sig í hlé frá rannsókninni vegna framhlaupsins.

Til stóð að nefndin yfirheyrði vitni í þessari viku, þar á meðal James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, og Sally Yates, fyrrverandi starfandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Nunes aflýsti hins vegar frekari vitnaleiðslum í bili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×