Tilgangur þess að endurnýta eldflaugar er að spara verulega við kostnað geimskota og á endanum að koma upp byggð manna á Mars.
Eldflaugin sem um ræðir lenti á drónaskipi í Atlantshafinu í apríl í fyrra, eins og sjá má hér að neðan.
Það tók um fjóra mánuði að gera þessa eldflaug klára fyrir annað geimskot, en markmið SpaceX er að stytta það tímabil niður í einn dag. Starfsmenn fyrirtækisins ætla sér að nota geimflaugar eins og flugvélar eru notaðar.
Dýrasti hluti geimskota er eldflaugin, sem yfirleitt er hönnuð til þess að brenna upp í gufuhvolfinu.
Samkvæmt Business Insider kostar hvert skot Falcon 9 eldflaugar um 62 milljónir dala. Þar af fara um 37 milljónir í byggingu eldflaugarinnar. SpaceX hefur gefið út að viðskiptavinir fyrirtækisins sem notast við notaðar eldflaugar fái um 30 prósenta afslátt.