Íslenski boltinn

Sandra María: Glöð úr því sem komið var

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sandra María Jessen í leik með íslenska landsliðinu.
Sandra María Jessen í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Anton
Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA, er vongóð að hún verði komin aftur á fulla ferð eftir þrjá mánuði en hún varð fyrir alvarlegum hnémeiðslum á dögunum.

Hún meiddist í leik með íslenska landsliðinu á Algarve-mótinu á Portúgal á dögunum og gæti það farið svo að hún missi af EM vegna meiðslanna. Fram undan er þó kapphlaup við tímann en mótið hefst um miðjan júlí.

Sandra María sleit aftara krossaband og verður af þeim sökum frá í að minnsta kosti í þrjá mánuði. Góðu fréttirnar eru þó þær að hún þarf ekki að fara í aðgerð.

„Liðþófar og liðbönd sluppu alveg hjá mér,“ sagði Sandra María í samtali við Akraborgina í dag. „Ég get því leyft mér að vera nokkuð glöð með niðurstöðuna úr því sem komið var.“

Hún segir að stefnan sé nú að gefa beinmarinu tíma til að jafna sig og svo taki endurhæfing við, eftir um sex vikur.

Sandra María sleit fremra krossband í hinu hnénu árið 2014 og fór þá í aðgerð. Sami læknir mælti gegn því að hún færi í aðgerð nú.

„Hann sagði mér að nú til dags takist langflestum íþróttamönnum að sleppa við aðgerð eftir slík meiðsli og það hái þeim ekkert,“ sagði hún.

Viðtalið allt við Söndru Maríu verður spilað í heild sinni í Akraborginni á X-inu í dag en þátturinn hefst klukkan 16.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×