Google Assistant, raddstýrður aðstoðarmaður úr smiðju Google, er nú fáanlegur á fleiri Android-símum. Hingað til hafði forritið eingöngu verið fáanlegt fyrir Pixel-síma Google. Frá þessu greindi Google á dögunum.
Google Assistant svipar til Siri, sem eigendur iPhone-síma þekkja, og Cortönu, sem notendur Windows 10 þekkja. Getur forritið tekið við raddskipunum eða einfaldlega spjallað við notendur ef sá gállinn er á þeim.
Samkvæmt umfjöllun TechCrunch um Google Assistant er forritið fullkomnara en Siri, Cortana og Alexa að því leyti að það á auðveldara með að halda áfram samtali við notandann án þess að ítreka þurfi sömu spurninguna. Samtalið sé sem sagt náttúrulegra og líkara raunverulegu samtali.
Þá getur Google Assistant, líkt og sambærileg forrit, minnt mann á viðburði, tekið myndir, þýtt texta, veitt leiðsögn, kíkt á veðrið og svo framvegis. Hundruð milljóna Android-notenda fá því aðgengi að aðstoðarmanninum nú þegar. Aðgengið er bundið við Marshmallow og Nougat útgáfur Android-stýrikerfisins.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Google Assistant í fleiri síma
