Múlakot var friðlýst fyrir þremur árum og nær friðlýsingin ekki aðeins til gamla íbúðar- og gistihússins heldur einnig til nærliggjandi húsa sem og trjágarðsins. Eigendur Múlakots, hjónin Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson, stefna að því að menningarminjar staðarins verði opnaðar almenningi til sýnis. Þau gáfu gamla húsið og bæjartorfuna í því skyni til sjálfseignarstofnunar um verkefnið.
„Þetta hús er í rauninni dæmi um það hvernig sveitabær þróast yfir í það, í gegnum 20. öldina, að vera bóndabær, þar sem gestir koma í heimsókn, yfir í það að verða sveitahótel,“ segir Pétur Ármannsson, arkitekt hjá Minjastofnun.
Málverk Ásgríms Jónssonar, sem hann málaði snemma á síðustu öld, vöktu athygli á staðnum og þarna varð listamannanýlenda og vinsælt sveitahótel og garðurinn var rómaður.

„Þannig að þetta er í rauninni þróunarsaga ferðamennsku á Íslandi. Trúlega er þetta best varðveitta hótel sem við eigum hérna frá gamalli tíð,“ segir Pétur.
Hótelið var rekið fram yfir 1970 og Pétur gisti þar oft með foreldrum sínu. Hann segist muna vel eftir því þegar þar var sjoppa og hótelið var jafnframt áningarstaður rútubíla.
Í lok ágústmánaðar í fyrra var fagnað fyrstu áföngum endurreisnarinnar en þar flutti Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, ávarp fyrir hönd Vinafélagsins. Hann telur að Múlakot verði vinsæll áfangastaður ferðamanna í framtíðinni.

Nánar var fjallað um Múlakot í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins.