Fótbolti

Barcelona áfram eftir stórkostlega endurkomu | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barcelona er komið áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir einhverja ótrúlegustu endurkomu síðari ára.

Barcelona tapaði fyrri leiknum gegn Paris Saint-Germain 4-0 og þurfti því að skora fimm mörk til að fara áfram, að því gefnu að PSG myndi ekki skora.

Frönsku meistararnir skoruðu og þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var staðan 3-1 og Barcelona þurfti þrjú mörk til að komast áfram. Og það gerðist.

Neymar kom Barcelona í 4-1 með frábæru marki beint úr aukaspyrnu. Þremur mínútum síðar sótti Luis Suárez ódýra vítaspyrnu sem Neymar skoraði úr.

Það var svo varamaðurinn Sergi Roberto sem skoraði sjötta markið þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 6-1 og Börsungar fara áfram, 6-5 samanlagt.

Staðan var 2-0 í hálfleik. Suárez kom Barcelona yfir strax á 3. mínútu og fimm mínútum fyrir hálfleik skoraði Layvin Kurzawa sjálfsmark.

Lionel Messi kom Barcelona í 3-0 á 50. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Tólf mínútum síðar skoraði Edinson Cavani og Börsungum virtust allar bjargir bannaðar. En síðan kom endurkoman ótrúlega og Barcelona er því komið áfram í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×