BBC greinir frá því að snekkja auðjöfursins Andrey Melnichenko, Sailing Yacht A, hafi verið föst við Gíbraltar, allt frá á miðvikudaginn í síðustu viku. Talsmaður Melnichenko segist gera ráð fyrir að auðjöfurinn fái brátt að sigla henni á brott á ný.
Snekkjan er skráð á Bermúda og var smíðuð af Nobiskrug og var siglt frá skipasmíðastöðinni í Kiel í norðurhluta Þýskalands fyrir hálfum mánuði.
Snekkjan er 143 metrar á lengd, með þrjú möstur, þar af eitt sem er um hundrað metrar á hæð. Hún vegur um 12.600 tonn og er talin hafa kostað að minnsta kosti 47 milljarða króna.
Melnichenko hefur auðgast mikið á framleiðslu áburðar og í kola- og orkugeiranum. Auður hans er metinn á 13,2 milljarða Bandaríkjadala.
Að neðan má sjá innslag Wall Street Journal um risasnekkjuna.