Innlent

Flugstjóri Icelandair lýsti yfir neyðarástandi eftir að hafa þurft í tvígang að hætta við lendingu

Birgir Olgeirsson skrifar
Skjáskot úr myndbandi sem birt var á vef Airlive.net.
Skjáskot úr myndbandi sem birt var á vef Airlive.net.
Farþegaþota Icelandair lenti í miklum vandræðum vegna veðurs þegar hún átti að lenda á flugvelli í Manchester í Bretlandi í morgun. Stormurinn Doris reið yfir Bretland í dag og náðu vindhviður allt að 44 metrum á sekúndu.

Þota Icelandair átti að lenda um hálf ellefu leytið að íslenskum tíma í morgun en þurfti frá að hverfa vegna veðurs. Stefnan var því tekin á Liverpool skammt frá en þar var ástandið ekkert betra að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, og sneri því vélin aftur til Manchester og lenti þar.

Fjallað hefur verið um málið í breskum fjölmiðlum í dag þar sem myndband hefur verið birt af aðflugi þotunnar, sem var ansi erfitt.

Flugstjóri vélarinnar lýsti yfir neyðarástandi vegna eldsneytis til að fá forgang í lendingu. „Það var farið að ganga á eldsneytið eftir þennan biðtíma,“ segir Guðjón en vélinni var lent skömmu síðar.

Hún fór svo aftur í loftið síðar í dag með farþega og er væntanleg til Keflavíkur innan skamms.



Á vef Metro
 er vitnað í konu sem var farþegi vélarinnar sem vildi skila þökkum til flugstjórans og öðru starfsfólki vélarinnar fyrir frábært starf við þessar erfiðu aðstæður.

„Þarna var mikil ókyrrð í lofti og eðlilegt að fólk fái ónota tilfinningu svo ekki sé meira sagt. Þetta gekk mjög vel fyrir sig,“ segir Guðjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×