Nokia 3310, einhver vinsælasti farsími fyrr og síðar, verður með litaskjá þegar hann snýr aftur á markað von bráðar.
Frá þessu er greint á síðunni Vtech sem telur sig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir þessu. Síminn verður formlega kynntur til leiks Mobile World Congres sem hefst á mánudaginn.
Í frétt Vtech segir að nýja útgáfan muni að mestu leyti vera eins og sú fyrri nema örlítið þynnri og nútímalegri. Skjárinn mun einnig verða eitthvað stærri en áður og hægt verður að fara á netið þó hinn nýji Nokia 3310 muni ekki flokkast sem snjallsími.
Nokia 3310 hefur stundum verið kallaður endingarbesti farsími sem framleiddur hefur verið og má því fastlega búast við því að hann muni njóta mikilla vinsælda þegar hann kemur aftur á markaðinn seinna á þessu ári.

