Íslenski boltinn

Margrét Lára skoraði í fyrsta leik eftir aðgerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Vísir/Hanna
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, er kominn aftur inn á völlinn eftir uppskurð á læri.

Margrét Lára hélt upp á endurkomu sína með marki og sigri þegar Valur vann ÍBV 6-3 í fyrsta leik liðanna í Lengjubikarnum í gær.

Margrét Lára skoraði þriðja mark leiksins á 34. mínútu en hún spilaði bara fyrri hálfleikinn en Valsmenn ætla að passa upp á að fyrirliðinn sinn fari ekki of hratt af stað.

Framundan er risastórt sumar þar sem hápunkturinn er Evrópumótið í Hollandi þar sem Margrét Lára á möguleika á því að spila á sínu þriðja Evrópumóti.

Elín Metta Jensen var búin að koma Val í 2-0 með tveimur mörkum á fyrstu 23 mínútunum þegar Margrét Lára skoraði sitt mark.

Elín Metta bætti síðan við tveimur mörkum í seinni hálfleik og skoraði því fernu í leiknum. Sjötta mark Valsliðsins skoraði síðan Málfríður Anna Eiríksdóttir.

Sigríður Lára Garðarsdóttir, Cloé Lacasse og Linda Björk Brynjarsdóttir  skoruðu mörk ÍBV í leiknum en þær minnkuðu muninn í 2-1, í 3-2 og svo í 6-3 á lokamínútu leiksins.

Þór/KA vann 5-1 sigur á FH í Lengjubikarnum í gær en mörk liðsins skoruðu þær Hulda Ósk Jónsdóttir (2 mörk), Rut Matthíasdóttir Sandra María Jessen og Karen María Sigurgeirsdóttir. Halla Marinósdóttir minnkaði muninn fyrir FH. Sandra María klikkaði líka á víti í leiknum.

Stjarnan og Breiðablik gerðu síðan 4-4 jafntefli í síðasta leik dagsins þar sem Stjörnukonur voru 3-0 yfir í hálfleik.  Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna og þær Lára Kristín Pedersen og Agla María Albertsdóttir eitt mark hvor. Fanndís Friðriksdóttir, Hildur Antonsdóttir, Guðrún Gyða Haralz og Rakel Hönnudóttir skoruðu mörk Blika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×