Nico Rosberg, heimsmeistari í Formúlu 1 segir að fyrrum liðsfélagi sinn og þrefaldi heimsmeistarinn Lewis Hamilton hafi vaðið yfir hann tímabilin áður en Rosberg varð meistari í fyrra.
Rosberg og Hamilton urðu liðsfélagar hjá Mercedes árið 2013. Hamilton hafði betur gegn Rosberg fyrstu þrjú tímabilin en svo vann Rosberg í fyrra.
Rosberg segist hafa þurft að verða grimmari til að sigra Hamilton, Rosberg viðurkennir að hann hafi átt erfitt með að berjast dekk í dekk við Hamilton áður en hann breytti hugarfari sínu fyrir síðasta tímabil.
„Lewis er mjög gíður í að fara að brúninni en halda sig innan marka þess sem má; vegna þess að hann er svo hæfileikaríkur ökumaður. Hann er mjög klár. Mér þótti dekk í dekk barátta erfiðari,“ sagði Rosberg í samtali við Daily Mail.
„Ég varð að horfa á myndbönd af baráttu okkar til að reyna að bæta mig.“
„Ég varði 20 mínútum á hverjum morgni og kvöldi í að hugleiða. Ég sat og hugsaði um hugsanir mínar, lærði að róa hugann. Ég las bækur um heimspeki.“
Rosberg sagði einnig frá því að hann hefði hætt að hjóla í sumar til að tapa einu kílógrammi af vöðvum. Það skilaði sér að hans mati þegar hann náði ráspól á Suzuka brautinni í Japan. Munurinn var 13 þúsundustu úr sekúndu og eitt kíló útskýrir þann mun að sögn Rosberg.
Liðsfélagi Hamilton í ár er hinn finnski Valtteri Bottas. Það verður áhugavert að sjá hvernig þeim mun koma saman og hvernig Bottas stenst samanburðinn við þrefalda heimsmeistarann.
