Fótbolti

Slátrun á Allianz Arena | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bayern München tók Arsenal í bakaríið þegar liðin mættust á Allianz Arena í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Lokatölur 5-1, Bayern í vil.

Þetta var fyrri leikur liðanna. Sá seinni fer fram á Emirates vellinum 7. mars næstkomandi. Það er þó lítil spenna fyrir hann.

Bayern byrjaði leikinn miklu betur og Arjen Robben kom þýsku meisturunum yfir með glæsilegu skoti á 11. mínútu.

Bayern tókst ekki að láta kné fylgja kviði og eftir hálftíma leik jafnaði Alexis Sánchez metin. Hann fylgdi þá á eftir, eftir að Manuel Neuer varði vítaspyrnu hans. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Bayern kláraði svo leikinn með þremur mörkum á 10 mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks.

Robert Lewandowski kom Bayern yfir þegar hann skallaði fyrirgjöf Philips Lahm í netið á 53. mínútu. Þremur mínútum síðar jók Thiago, besti maður vallarins, muninn í 3-1. Hann skoraði svo aftur á 63. mínútu. Ótrúlegur 10 mínútna kafli hjá Bæjurum.

Varamaðurinn Thomas Müller fullkomnaði svo niðurlægingu Arsenal-manna þegar hann skoraði fimmta markið tveimur mínútum fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×