Viðskipti erlent

Pizza Hut dró bandaríska móðurfélagið niður

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sala á veitingastöðum Pizza Hut var undir væntingum á síðustu þremur mánuðum 2016.
Sala á veitingastöðum Pizza Hut var undir væntingum á síðustu þremur mánuðum 2016. Mynd/Wikipedia
Velta bandaríska skyndibitarisans Yum Brands, eiganda KFC, Taco Bell og Pizza Hut, var undir væntingum á fjórða ársfjórðungi 2016 vegna þess að færri borðuðu þá á Pizza Hut en spár gerðu ráð fyrir.

Sala á vörum KFC og Taco Bell jókst um þrjú prósent en tölur Pizza Hut fóru niður um tvö prósent. Við árslok 2016 hafði heildarsala veitingastaða Yum Brands, það er þeirra sem höfðu verið opnir í að minnsta kosti eitt ár, aukist um eitt prósent á fjórða ársfjörðungi en í spám sérfræðinga hjá Consensus Metrix var reiknað með 2,1 prósenta aukningu. Tekjur skyndibitarisans námu 2,02 milljörðum Bandaríkjadala sem er aukning um tvö prósent milli ára.

„KFC og Taco Bell náðu tiltölulega góðum árangri í desember þrátt fyrir erfiðar aðstæður innan greinarinnar í Bandaríkjunum,“ er haft eftir David Gibbs, fjármálastjóra Yum Brands, í frétt Reuters um uppgjörið.

Aðstæðurnar sem Gibbs vísar til tengist aukinni samkeppni frá kjörbúðum, stórmörkuðum og fyrirtækjum sem framleiða og senda máltíðarpakka heim að dyrum eins og Blue Apron og Chefd. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×