Erlent

Utanríkisráðherra Tsjad nýr framkvæmdastjóri Afríkusambandsins

atli ísleifsson skrifar
Moussa Faki Mahamat.
Moussa Faki Mahamat. Vísir/afp
Moussa Faki Mahamat, utanríkisráðherra Tsjad, verður nýr framkvæmdastjóri Afríkusambandsins og tekur þar með við stöðunni af hinni suður-afrísku Nkosazana Dlamini-Zuma.

Þetta varð ljóst eftir að Mahamat sigraði fjóra mótframbjóðendur sína í kosningu á fundi Afríkusambandsins í eþíópísku höfuðborginni Addis Abeba í dag. Í síðustu umferð kosninganna stóð valið milli Mahamat og keníska utanríkisráðherranum Amina Mohamed.

Hinir þrír sem sóttust eftir stöðunni komu frá Senegal, Botswana og Miðbaugs-Gíneu.

Búist er við að á fundinum verði einnig rætt um tilraun Marokkó til að gerast aðili að sambandinu á nýjan leik. Marokkó sagði skilið við sambandið fyrir 33 árum til að mótmæla ákvörðun sambandsins að samþykkja aðild Vestur-Sahara.

Dlamini-Zuma tók við framkvæmdastjórastöðunni árið 2012, en hafði þar áður gegnt ráðherraembætti í heimalandi sínu. Hún var gift suður-afríska forsetanum Jacob Zuma á árunum 1982 til 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×