Friðarviðræður sem ætlað er að binda enda það ófremdarástand sem ríkt hefur í Sýrlandi síðustu ár hófust í kasöksku höfuðborginni Astana í morgun.
Stjórnvöld í Rússlandi og Íran, sem bæði styðja stjórn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, hafa milligöngu um viðræður Sýrlandsstjórnar og fulltrúa ýmissa uppreisnarhópa í landinu.
Í frétt BBC kemur fram að uppreisnarmenn segjast ekki munu ræða beint við fulltrúa Sýrlandsstjórnar.
Síðustu friðarviðræður vegna ástandsins í Sýrlandi, sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu milligöngu um, runnu út í sandinn snemma árs 2016.
Hryðjuverkasamtökin ISIS, sem ráða enn yfir stórum landsvæðum í Sýrlandi, taka ekki þátt í viðræðunum.
Utanríkisráðuneyti Kasakstan hefur gefið það út að viðræðurnar klárist á morgun.
Rúmlega 300 þúsund manns hafa fallið og 11 milljónir manna eru á flótta vegna borgarastyrjaldarinnar sem staðið hefur frá árinu 2011.
Friðarviðræður hafnar í Astana
atli ísleifsson skrifar
