Innlent

Ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar nánast frágengin

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er nánast frágengin. Ennþá stendur yfir vinna við lokafrágang stjórnarsáttmála en reiknað er með að ný ríkisstjórn verði kynnt eftir helgi.

Forystufólk Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kom saman til fundar í alþingishúsinu klukkan ellefu í morgun en formlegar stjórnarmyndunarviðræður flokkanna hófust á mánudag. Fundi flokkanna lauk klukkan rúmlega fjögur síðdegis.

Ekkert bakslag

„Við erum að vinna í málefnavinnunni og setja orð niður á blað. Það á eftir að koma í ljós hvort það er langt komið eða ekki en við erum allavega ennþá að á fullu. Núna eftir fundi dagsins erum við aðeins að vinna í sitt hvoru lagi og það kemur í ljós hvort það verður fundur aftur seinna í dag eða á morgun,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir árangur haft náðst í viðræðunum í dag.

„Þetta mjakast alltaf svolítið áfram og fer alltaf í rétta átt og ekkert bakslag hefur verið,“ segir Benedikt.

Bæði Benedikt og Óttarr ítrekuðu að ekki væri komin endanleg niðurstaða um hvort flokkunum takist að mynda ríkisstjórn.

„Við erum að nálgast sameiginlegan skilning held ég og mér finnst líklegra en ekki að það verði að þessari ríkisstjórn. En maður á aldrei að segja aldrei í þessu samhengi,“ segir Óttarr.

Ráðherraskipan nánast frágengin

Samkvæmt heimildum fréttastofu er ráðherraskipan ríkisstjórnar flokkanna nánast frágengin og ólíklegt að hún taki breytingum frá því sem ákveðið var í dag. Þá er stjórnarsáttmálinn langt komin og aðeins á eftir að nást samkomulag um endanlegt orðalag hans.

En hvenær verður ný ríkisstjórn kynnt? Eftir að stjórnarsáttmálinn er tilbúinn þarf að leggja hann fyrir stofnanir allra flokka til samþykktar. Samkvæmt heimildum fréttastofu er reiknað með að það verði gert um helgina og ný ríkisstjórn kynnt á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×