Nú styttist í gamlársdag og því bíða eflaust margir spenntir eftir Kryddsíld, áramótaþætti Stöðvar 2. Kryddsíld er árlegur áramótaþáttur sem hefur verið fastur dagskrárliður á Stöð 2 frá árinu 1990.
Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga mann á Alþingi fara yfir árið sem er líða. Umsjónarmenn þetta árið eru þau Telma Tómasson og Logi Bergmann en kynnir er Edda Andrésdóttir. Sem fyrr verður fréttaannáll Stöðvar 2 sýndur í Kryddsíld ásamt skemmtiatriðum.
Kryddsíld hélt upp á 25 ára afmælið sitt í fyrra og sýndi í tilefni af því brot úr eftirminnilegum atriðum þáttarins frá upphafi. Vísir hefur dustað rykið af myndbandinu og hefst þar með upphitun fyrir Kryddsíldina á morgun. Myndbandið má sjá hér að ofan.
Kryddsíld hefst klukkan 14:00 á Stöð 2 á gamlársdag en þátturinn er tveggja tíma langur.

