Karlalandslið Íslands í knattsyrnu er maður ársins hjá Stöð 2. Arnór Ingvi Traustason, Hannes Þór Halldórsson og Kári Árnason mættu fyrir hönd liðsins og tóku við viðurkenningu í Kryddsíldinni á Stöð 2 í dag.
Í spjalli þeirra við Eddu Andrésdóttur kom meðal annars fram að Jóhann Berg Guðmundsson, kantmaðurinn knái, hefði verið rekinn sem plötusnúður í búningsklefa strákanna eftir leikinn gegn Englandi. Hans tónlistarval fengi misjafnar undirtektir.
Hannes Þór sagði að Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson hefði verið ráðinn í hans stað og þá var ekki að spyrja að leikslokum. Lög Skítamórals fóru í loftið og sungu strákarnir með strákabandinu frá Selfossi og skemmtu sér vel í klefanum eftir leikinn ógleymanlega í Nice.
„Þetta minnti mig aftur á Skítamóral og þeir hafa verið á playlistanum síðan,“ sagði Hannes Þór.
Fram kom í spjallinu að Lars Lagerbäck hefði sent strákunum okkar kveðju í pósti á dögunum og þakkað þeim fyrir samstarfið.
Þá sagði Kári Árnason að hann ætti von á því að knattspyrnuárið 2017 yrði enn betra en 2016.
Lífið