Símaframleiðandinn BlackBerry ætlar að skipta um gír og einbeita sér að því að þróa tækni fyrir sjálfkeyrandi bíla. Frá þessu greindi fréttaveitan Reuters um helgina en BlackBerry opnaði rannsóknastöð sína í Waterloo í Kanada í gær. Viðstaddur opnunarathöfnina var Justin Trudeau forsætisráðherra.
BlackBerry varð vinsælt merki á farsímamarkaði þegar fyrirtækið setti síma sinn, Quark, á markað. Sá sími var útbúinn litlu lyklaborði og hentaði hann einkar vel fyrir atvinnufólk þar sem auðvelt var að nálgast tölvupóst í símanum.
Með tilkomu snjallsíma og snertiskjáa lækkaði frægðarsól BlackBerry hins vegar á himni og hafa símar fyrirtækisins ekki selst eins vel þar sem einkenni þeirra, lyklaborðið, er í raun orðið óþarft.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

