Erlent

Forsetinn vitnaði í Goethe í samúðarkveðju til þýska forsetans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Vísir/Anton
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi í dag samúðarkveðju til forseta Þýskalands, Joachims Gaucks, vegna hryðjuverksins sem framið var á jólamarkaði í Berlín í gærkvöldi.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu kemur fram að í kveðju forseta fyrir hönd íslensku þjóðarinnar votti hann Þjóðverjum samúð sína og að hugurinn leiti nú til allra þeirra sem eigi um sárt að binda í Berlín.

„Í okkar huga er árásin ekki aðeins atlaga gegn því saklausa fólki sem fyrir henni varð heldur beinist hún gegn dýrmætum gildum og lífsgæðum á borð við frelsi og persónulegt öryggi manna. Þannig verk eru eins andstæð þeim friðarboðskap sem jólin og raunar flest trúarbrögð bera í sér og hugsast getur.“

Guðni vitnaði svo til þýska skáldsins til Goethe:

„Wir hoffen immer, und in allen Dingen ist hoffen besser als verzweifeln“ („Við höldum alltaf í vonina; alltaf er betra að vona en örvænta“).

Þá sendi Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, samúðarskeyti til Michael Müller, borgarstjóra Berlínar, en skeytið er svohljóðandi:

„Kæri borgarstjóri,

 

Fyrir hönd allra Reykvíkinga, vil ég votta þér mína dýpstu samúð vegna þeirra voveiflegu atburða sem áttu sér stað á jólamarkaðnum í Breitscheidplatz í gærkvöld.

Hugur okkar er hjá fórnarlömbunum, íbúum Berlínar og öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara óskiljanlegu voðaverka.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×