Erlent

Bild: Pólski vörubílstjórinn var á lífi þegar ekið var inn á jólamarkaðinn

Atli Ísleifsson skrifar
Brandenborgarhliðið í Berlín baðað þýsku fánalitunum til að minnast fórnarlamba árásarinnar.
Brandenborgarhliðið í Berlín baðað þýsku fánalitunum til að minnast fórnarlamba árásarinnar. Vísir/AFP
Pólski vörubílstjórinn Lukasz Urban var á lífi inni í vörubílnum þegar árásarmaður ók honum inn á jólamarkaðinn í Berlín á mánudagskvöldið. Er líklegt að Urban hafi reynt að stöðva árásarmanninn.

Þýska blaðið Bild greinir frá þessu og vísar í ónafngreindar heimildir innan lögreglunnar sem eiga að hafa fundið vísbendingar þessa efnis við rannsókn og krufningu mannsins.

Í dag greinir Spiegel svo frá því að lögregla leiti að Túnismanni sem gæti mögulega tengst málinu. Eiga persónuskilríki hans að hafa fundist í vörubílnum.

Að minnsta kosti tólf manns fórust og fimmtíu slösuðust þegar bílnum var ekið inn á markaðinn Breitscheidplatz. Lögregla segir allt benda til að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða og gengur árásarmaðurinn enn laus.

Í frétt SVT segir að vörubíllinn sem notaður var í árásinni hafi verið í eigu pólsks fyrirtækis og hafi forsvarsmenn þess sagt að ekkert hafi spurst til mannsins eftir klukkan 16 á mánudaginum. Hann átti að skila farminum, stálbitum, í Berlín á mánudag, en átti svo að halda heim til Póllands. Hann hafði komið frá Ítalíu með farminn.

Bild greinir frá því að öryggismyndavélar sýni að Urban hafi verið á kebabstað um klukkan 14. Um klukkustund síðar hringdi hann í eiginkonu sína og þegar hún reyndi að hringja til baka um klukkan 16 hafi hann ekki svarað.

„Þetta hlýtur að hafa verið barátta,“ segir heimildarmaður Bild sem telur að Urban hafi verið stunginn með hníf þegar hann hafi reynt að taka í stýrið og koma í veg fyrir ódæði árásarmannsins.

Þegar vörubíllinn nam svo staðar eftir að hafa ekið í gegnum markaðinn á árásarmaðurinn að hafa skotið Urban til bana og svo hlaupið á brott. Lík Urban fannst í vörubílnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×