Lífið

Daufur er dellulaus maður

Elín Albertsdóttir skrifar
Gunnlaugur með uppáhaldsfígúrurnar, frá vinstri er Chaplin, Jóhannes Páll páfi II, Indira Gandhi, Winston Churchill, Mahatma Gandhi, Golda Meir, Moshe Dayan, Barack Obama og Fidel Castro.
Gunnlaugur með uppáhaldsfígúrurnar, frá vinstri er Chaplin, Jóhannes Páll páfi II, Indira Gandhi, Winston Churchill, Mahatma Gandhi, Golda Meir, Moshe Dayan, Barack Obama og Fidel Castro. MYND/GVA
Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, er dellukarl að eigin sögn. Hann safnar frægum persónum úr mannkynssögunni í formi 18 cm trékarla. Sænskur handverksmaður, Urban Gunnarsson, á heiðurinn af útskurðinum.

Gunnlaugur hefur safnað um áttatíu tréfígúrum. Þar má berja augum Winston Churchill, Hitler, Stalín, Nixon, Mandela, Gandhi, Obama, Castro, Kennedy, Jóhannes Pál páfa, Moshe Dayan og Ayatolla Khomeini svo fáeinir séu nefndir. Söfnunin byrjaði þegar Gunnlaugur og kona hans, Guðrún Brynleifsdóttir, voru í heimsókn í Stokkhólmi í Svíþjóð árið 2009. Gunnlaugur stundaði sjálfur nám í Svíþjóð á árum áður og fjölskyldan bjó þar í sjö ár (1981-88). Í þetta sinn hafði hann lofað að heimsækja sænskt handverksfyrirtæki kennt við fjölskylduna Gunnarsson sem hefur verið starfrækt í Stokkhólmi frá árinu 1930. „Urban Gunnarsson er sonur mannsins sem stofnaði fyrirtækið og líklegast síðasti móhíkaninn þar sem hann er kominn undir sjötugt, ókvæntur og barnlaus. Systir hans málar gripina,“ greinir Gunnlaugur frá.

Féll fyrir spýtukörlum

„Það voru vinahjón okkar, Hrafnkell Helgason læknir, sem nú er látinn, og Sigrún Aspelund, kona hans, sem áttu nokkra trékarla og lofaði ég að fara fyrir þau til Gunnarssons til að kaupa Hitler. Sá var ekki til svo ég keypti Castro í staðinn. Eftir heimsóknina hugsaði ég mikið um þessa áhugaverðu gripi. Ég fór því aftur daginn eftir og keypti nokkra karla fyrir sjálfan mig. Síðan er ég fastur viðskiptavinur hjá Urban Gunnarsson sem er orðinn góður vinur minn að auki. Sonur minn bjó í Stokkhólmi í þrjú ár og þegar við hjónin heimsóttum hann bætti ég ætíð í safnið sem er orðið nokkuð fyrirferðarmikið. Þetta eru þó ekki allt menn sem ég dái, því fer fjarri, margir verstu harðstjórar sögunnar eru þarna á meðal. Svona dellur getur maður fengið,“ segir Gunnlaugur.

Íslendingar í útskurði

Á Gunnarsson-verkstæðinu er skrá yfir karla og konur sem hægt er að kaupa. „Flestir karlarnir eru sænskir stjórnmálamenn, einnig eru þekktir þjóðarleiðtogar eins og Churchill sem er mest seldi trékarlinn, enda virkilega vel heppnaður. Gandhi er sömuleiðis vinsæll og Tage Erlander, sem var forsætisráðherra Svía á undan Olof Palme, og svo de Gaulle. Þá eru allir forsetar Bandaríkjanna frá 1900 komnir í tré og Trump er í vinnslu,“ útskýrir Gunnlaugur og bætir við að hægt sé að panta karl að eigin ósk en það sé talsvert dýrara.

Enginn Íslendingur er á listanum en Urban hefur gert þá eftir pöntunum. Tveir Íslendingar eru í pöntun um þessar mundir fyrir Gunnlaug. Hann segir þetta vera tvo sterka karaktera, Sigurbjörn Einarsson biskup og Ólaf Thors forsætisráðherra. Einnig er Urban með í smíðum Jackie Kennedy og Idi Amin og ísraelsku forsætisráðherrana Shimon Peres og Yitzhak Rabin. Gunnlaugur hefur sterkar skoðanir á því hvernig Jackie á að vera klædd og hefur sent myndir af henni til útskurðarmeistarans eins og hann gerir oft í tengslum við pantanir.

Castro fékk karl

Gunnlaugur á sjálfan sig útskorinn en þann karl fékk hann í afmælisgjöf. „Gjöfin kom á óvart og ég er ágætlega sáttur við mittismálið,“ segir hann glettinn. Gunnlaugur á ekki bara 80 fígúrur uppi á hillu heldur á hann ævisögur þeirra flestra og þekkir allvel sögu hvers og eins. Hann segir að útskurðarmeistarinn sé einnig vel að sér um sögu allra þeirra sem hann sker út. „Þekktir sænskir stjórnmálamenn hafa gefið þjóðarleiðtogum trékarla í opinberum heimsóknum. Olof Palme gaf Castro einn þegar hann heimsótti Kúbu. Palme var fyrsti vestræni leiðtoginn sem fór þangað í heimsókn. Ég veit að Nixon keypti helling af sjálfum sér til að gefa öðrum.“

Tréfígúrurnar vekja jafnan mikla athygli á heimili Gunnlaugs og verður gjarnan til umræða um þá. „Fólk hefur gaman af því að spreyta sig á hversu marga það þekkir en menn eru auðvitað mismunandi glöggir og fígúrurnar óneitanlega misvel heppnaðar.“

Þetta er glæsilegt lið en bara lítill hluti af safninu því Gunnlaugur á 80 tréfígúrur. MYND/GVA
Áberandi kynjahalli

Þegar Gunnlaugur er spurður hvort þetta sé ekki mikið karlaveldi á hillunni hjá honum, svarar hann játandi. „Það er sláandi kynjahalli hjá skurðmeistaranum og hann afsakar sig með því að hann sé ekki nægilega flinkur að skera út konur. Einhvern tíma var hann beðinn að gera Marilyn Monroe en það tókst svo illa að viðkomandi vildi hana ekki. Hann hefur samt gert nokkrar konur fyrir mig enda hafa gestir oft spurt hvort ég hafi eitthvað á móti konum. Ég á Goldu Meir, Indiru Gandhi, móður Theresu, Silvíu drottningu og Margréti Thatcher.“

Gunnlaugur segist hafa mikla ánægju af tréfígúrunum og hann sé hvergi hættur að safna þótt eigin­konunni finnist nóg komið. „Einhvern tíma var sagt að daufur væri dellulaus maður og þetta er ein af mínum dellum. Ég kaupi bara fleiri hillur. Ég átti von á Urban í heimsókn í haust til að skoða safnið mitt en úr því varð því miður ekki. En við ræðum saman í síma að minnsta kosti einu sinni í mánuði.“

Þarna sést vel safnið hans Gunnlaugs sem oftar en ekki opna á mikla umræðu þegar gesti ber að garði. MYND/GVA
Margar jólahefðir

Gunnlaugur er mikið jólabarn. Jólin byrja hjá honum í messu í Seltjarnarneskirkju kl. 18 en hann er í sóknarnefnd kirkjunnar. Þegar fjölskyldan kemur heim úr messu er svo jólamáltíðin. „Móðir mín, Selma Kaldalóns, var hálfdönsk og var ævinlega með aligæs eða aliönd á borðum. Ég hef fylgt þeirri hefð,“ segir Gunnlaugur en móðir hans var þekkt tónskáld og afi hans, Sigvaldi Kaldalóns læknir, sömuleiðis. Hann samdi ódauðleg lög eins og Hamraborgina, Á Sprengisandi, Suðurnesjamenn að ógleymdum jólalögunum Nóttin var sú ágæt ein og Ave Maria. „Mamma spilaði alltaf jólalög heima á jólum og meðal þeirra var einmitt Nóttin var sú ágæt ein. Ég var alinn upp við helgihald á jólum. Yngsta læsa barnið í fjölskyldunni las jólaguðspjallið og þetta gerum við enn. Mér finnst líka ómissandi að fara í kirkjugarðana á aðfangadag með bræðrum mínum. Þau eru ansi mörg leiðin sem við heimsækjum og skreytum. 

Önnur hefð er á jóladag en þá geng ég á Keili ásamt bræðrum mínum og nokkrum félögum. Það höfum við gert í tuttugu ár. Eftir gönguna kemur maður svangur heim í hangikjötið,“ segir Gunnlaugur sem var að fara yfir prófverkefni guðfræðinema þegar við trufluðum hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×