Ástralska flugfélagið Quantas tilkynnti í dag að það mun bjóða upp á beint flug á milli Perth og London frá og með mars mánuði árið 2018.
Er þetta í fyrsta skiptið sem hægt verður að fljúga beint til Ástralíu frá Evrópu án þess að millilenda. Guardian greinir frá.
Flugfélagið gerir ráð fyrir því að flogið verði 14 sinnum í viku og að flugið muni taka um 17 klukkustundir. Talið er að þessi nýja flugleið verði lyftistöng fyrir Perth en þetta mun þýða að borgin verður mikilvægur tengiliður á milli Evrópu og annarra hluta Ástralíu.
Búast þarlend yfirvöld við því að flugleiðin muni þýða innspýtingu upp á 9 – 36 milljóna dollara fyrir efnahag vestur ástralska fylkisins.
Flugvélarnar sem flogið verður þessa leið eru af gerðinni Boeing 787-9 Dreamliner og munu þær rúma 236 farþega, en flugleiðin verður meðal lengstu flugleiða í heimi.
Bjóða upp á beint flug til Ástralíu frá London: Flugið tekur 17 klukkustundir
