Um vanhæfi Guðmundur Andri Thorsson skrifar 12. desember 2016 07:00 Hvenær er dómari vanhæfur til að úrskurða í málum? Því verða aðrir að svara en ég, sem er bara maður úti í bæ, fæddur í spurningamerkinu. Þessari spurningu verða líka aðrir að svara en verjendur og aðrir launaðir starfsmenn úr þeim mikla Hrunamannahreppi sem sakborningar úr auðmannahópi virðast hafa kringum sig um þessar mundir, verjendur, ráðgjafar, almannatenglar, auglýsingamenn, þartilráðnir mótendur almenningsálits, sem skipuleggja PR-átak með markvissum lekum í valda fjölmiðla, sem að sjálfsögðu bregðast við með umfjöllun, eins og eðlilegt er.„Grundar dóma …?“Hvenær er dómari vanhæfur? Stundum heyrist sagt að nóg sé að vakni grunsemdir um vanhæfi; þar með sé traustið farið og vanhæfið blasi við. Er það ekki nokkuð ströng kenning? Nægir þá verjendum, og öðrum starfsmönnum sakborninganna, ekki að hamra á grunsemdum sínum um vanhæfi, jafnvel þótt tilefnislítið kunni að vera – alveg þangað til dómari fæst sem viðkomandi telja sig hafa ástæðu til að ætla að verði sér hliðhollur? Hvenær eru grunsemdir um vanhæfi orðnar almennar? Þegar þær eru nógu hávaðasamar og nógu títt fram bornar – þótt augljóslega sé um að ræða skipulagða aðgerð? Er slíkt ekki til þess fallið að grafa undan réttarríkinu? Hvenær er dómari vanhæfur? Þegar hann grettir sig? Þegar honum mislíkar augljóslega framganga sakbornings? Ég veit það ekki. Dómarar eru fólk sem fer í sund og hlustar á veðurfréttir í útvarpinu, fer í bankann, fær kvef, horfir á Barnaby. Fólk sem lifir sínu lífi. Ekki goðmögn einhvers staðar uppi í fjalli. Það að vera dómari er starf sem útheimtir vissa sérhæfða þekkingu – eins og að vera fiðlusmiður eða netagerðarmaður. Þetta útheimtir ákveðinn þankagang, þjálfun í að horfa á mál og leysa þrautir. Er ekki ágætur mælikvarði á störf dómara að líta á það hvernig dómar viðkomandi eru unnir? Eru þeir vel rökstuddir, málin reifuð af víðsýni og sanngirni, niðurstaðan fengin að undangenginni skýrri röksemdafærslu, þar sem öllu er til skila haldið og öll sjónarmið skoðuð, vegin og metin? Eða ekki? Dómarinn horfir á mál frá öllum hugsanlegum hliðum áður en dómur er látinn falla. Vakni rökstuddur grunur um að svo hafi ekki verið, sé dómur áberandi illa rökstuddur þannig að halli á aðra hliðina, er kannski ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hvort annarleg sjónarmið hafi þar verið að verki.Dansinn í HruniDómar í Hrunmálunum eru sérlega mikilvægir fyrir okkur sem samfélag vegna þess að þar er dæmt í málum vegna umsvifa sem reyndust mjög afdrifarík fyrir land og þjóð. Brýnt er að fá úr því skorið hvað má og hvað má ekki gera í meðferð fjár hér á landi – vel að merkja fjármuna almennings, eins og var í tilviki bankanna. Ekki hefur maður mikið séð slíka grundvallarumræðu hjá verjendum þeirra sem við þá sögu koma; en þeim mun meira gert af því að reyna að ryðja út úr dóminum sönnunargögnum á þeim forsendum að ekki hafi verið rétt staðið að því að afla þeirra; vitnum á þeim forsendum að þau séu ekki marktæk – og dómurum á þeim forsendum lengi vel að þeir væru undir áhrifum múgæsingar í samfélaginu, létu hrífast með af þeirri reiðiöldu sem skók undirstöður samfélagsins í kjölfar Hrunsins og létu undan þrýstingi hins óða múgs að fá einhverja til að bera burt syndir samfélagsins – en nú í seinni tíð, á þeim forsendum að þeir séu sjálfir haldnir þessari reiði. Allt er þetta gert með þess háttar fasi, að verjendur og sakborningar séu á einhvern hátt yfir réttarkerfið hafnir. Sú greining að blind reiði sé helsta hreyfiaflið í uppgjörinu við Hrunið virðist hafa leitt ráðgjafa sakborninga á þá braut að þeir skuli reyna sjálfir að hagnýta sér það reginafl, og snúa því að dómurum Hæstaréttar í þeirri von að veikja þá nægilega til að þeir hrökklist úr sínu sæti. Hvenær er dómari vanhæfur til að fjalla um hugsanleg efnahagbrot bankamanna? Þegar hann hefur átt innistæðu í banka eða tekið bílalán? Sumir tala þannig. Ætli slíkir menn séu ekki torfundnir? Markús Sigurbjörnsson, dómarinn sem mjög hefur verið til umræðu, erfði hlutabréf í Glitni og víðar eftir móður sína. Hann tilkynnti þar til bærum aðilum um eign sína – þótt öðru væri haldið fram í fjölmiðlaumfjöllun. Eignin óx og margfaldaðist – og hann seldi svo bréfin og setti í svonefnda eignastýringu í hinum illræmda Sjóði níu, eins og svo margt fólk gerði. Á því tapaði hann upphæð sem nam andvirði eins jeppa. Það kann að vera næg ástæða til að reiðast þeim sem tæmdu Sjóð níu – en það breytir samt engu um gerðir þeirra og ábyrgð á afdrifum sjóðsins. Uppgjör vegna Hrunmála hafa dregist óhæfilega og maður getur vel ímyndað sér að það sé erfitt hlutskipti að eiga yfir höfði sér þrúgandi dómsmál árum saman, jafnvel þótt maður sé þegar að afplána dóm vegna fyrri mála. Hvað sem kann að líða hugsanlegri sök manna í Hruninu er þetta óbærilegt hlutskipti, og bætist við óvild almennings og æruleysi. Auðmenn og meintir fjárplógsmenn eiga líka sín mannréttindi. Margvíslegar ástæður eru eflaust fyrir þessum drætti – verklag saksóknara, fjársvelti hjá embætti sérstaks saksóknara, eðli málanna – hitt og þetta. En ætli drjúg ástæða sé samt ekki líka hvernig vörnum er hagað í þessum málum, þar sem öllum ráðum er beitt til að tefja þau, þyrla upp moldviðri, berjast um hvert snifsi og draga allt sem mest á langinn, í von um að sakir fyrnist og gögn týnist, og samfélagið þreytist. Í rauninni græðir enginn á því, nema náttúrlega Hrunamannahreppurinn, verjendurnir, ráðgjafaherinn, almannatenglarnir og þartilráðnir mótendur almenningsálitsins.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins arfleifð heldur líka framtíð okkar Íslendinga Halla Hrund Logadóttir Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Vítahringur ofbeldis og áfalla Paola Cardenas Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Að segja bara eitthvað Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Heilbrigð sál í hraustum líkama Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun
Hvenær er dómari vanhæfur til að úrskurða í málum? Því verða aðrir að svara en ég, sem er bara maður úti í bæ, fæddur í spurningamerkinu. Þessari spurningu verða líka aðrir að svara en verjendur og aðrir launaðir starfsmenn úr þeim mikla Hrunamannahreppi sem sakborningar úr auðmannahópi virðast hafa kringum sig um þessar mundir, verjendur, ráðgjafar, almannatenglar, auglýsingamenn, þartilráðnir mótendur almenningsálits, sem skipuleggja PR-átak með markvissum lekum í valda fjölmiðla, sem að sjálfsögðu bregðast við með umfjöllun, eins og eðlilegt er.„Grundar dóma …?“Hvenær er dómari vanhæfur? Stundum heyrist sagt að nóg sé að vakni grunsemdir um vanhæfi; þar með sé traustið farið og vanhæfið blasi við. Er það ekki nokkuð ströng kenning? Nægir þá verjendum, og öðrum starfsmönnum sakborninganna, ekki að hamra á grunsemdum sínum um vanhæfi, jafnvel þótt tilefnislítið kunni að vera – alveg þangað til dómari fæst sem viðkomandi telja sig hafa ástæðu til að ætla að verði sér hliðhollur? Hvenær eru grunsemdir um vanhæfi orðnar almennar? Þegar þær eru nógu hávaðasamar og nógu títt fram bornar – þótt augljóslega sé um að ræða skipulagða aðgerð? Er slíkt ekki til þess fallið að grafa undan réttarríkinu? Hvenær er dómari vanhæfur? Þegar hann grettir sig? Þegar honum mislíkar augljóslega framganga sakbornings? Ég veit það ekki. Dómarar eru fólk sem fer í sund og hlustar á veðurfréttir í útvarpinu, fer í bankann, fær kvef, horfir á Barnaby. Fólk sem lifir sínu lífi. Ekki goðmögn einhvers staðar uppi í fjalli. Það að vera dómari er starf sem útheimtir vissa sérhæfða þekkingu – eins og að vera fiðlusmiður eða netagerðarmaður. Þetta útheimtir ákveðinn þankagang, þjálfun í að horfa á mál og leysa þrautir. Er ekki ágætur mælikvarði á störf dómara að líta á það hvernig dómar viðkomandi eru unnir? Eru þeir vel rökstuddir, málin reifuð af víðsýni og sanngirni, niðurstaðan fengin að undangenginni skýrri röksemdafærslu, þar sem öllu er til skila haldið og öll sjónarmið skoðuð, vegin og metin? Eða ekki? Dómarinn horfir á mál frá öllum hugsanlegum hliðum áður en dómur er látinn falla. Vakni rökstuddur grunur um að svo hafi ekki verið, sé dómur áberandi illa rökstuddur þannig að halli á aðra hliðina, er kannski ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hvort annarleg sjónarmið hafi þar verið að verki.Dansinn í HruniDómar í Hrunmálunum eru sérlega mikilvægir fyrir okkur sem samfélag vegna þess að þar er dæmt í málum vegna umsvifa sem reyndust mjög afdrifarík fyrir land og þjóð. Brýnt er að fá úr því skorið hvað má og hvað má ekki gera í meðferð fjár hér á landi – vel að merkja fjármuna almennings, eins og var í tilviki bankanna. Ekki hefur maður mikið séð slíka grundvallarumræðu hjá verjendum þeirra sem við þá sögu koma; en þeim mun meira gert af því að reyna að ryðja út úr dóminum sönnunargögnum á þeim forsendum að ekki hafi verið rétt staðið að því að afla þeirra; vitnum á þeim forsendum að þau séu ekki marktæk – og dómurum á þeim forsendum lengi vel að þeir væru undir áhrifum múgæsingar í samfélaginu, létu hrífast með af þeirri reiðiöldu sem skók undirstöður samfélagsins í kjölfar Hrunsins og létu undan þrýstingi hins óða múgs að fá einhverja til að bera burt syndir samfélagsins – en nú í seinni tíð, á þeim forsendum að þeir séu sjálfir haldnir þessari reiði. Allt er þetta gert með þess háttar fasi, að verjendur og sakborningar séu á einhvern hátt yfir réttarkerfið hafnir. Sú greining að blind reiði sé helsta hreyfiaflið í uppgjörinu við Hrunið virðist hafa leitt ráðgjafa sakborninga á þá braut að þeir skuli reyna sjálfir að hagnýta sér það reginafl, og snúa því að dómurum Hæstaréttar í þeirri von að veikja þá nægilega til að þeir hrökklist úr sínu sæti. Hvenær er dómari vanhæfur til að fjalla um hugsanleg efnahagbrot bankamanna? Þegar hann hefur átt innistæðu í banka eða tekið bílalán? Sumir tala þannig. Ætli slíkir menn séu ekki torfundnir? Markús Sigurbjörnsson, dómarinn sem mjög hefur verið til umræðu, erfði hlutabréf í Glitni og víðar eftir móður sína. Hann tilkynnti þar til bærum aðilum um eign sína – þótt öðru væri haldið fram í fjölmiðlaumfjöllun. Eignin óx og margfaldaðist – og hann seldi svo bréfin og setti í svonefnda eignastýringu í hinum illræmda Sjóði níu, eins og svo margt fólk gerði. Á því tapaði hann upphæð sem nam andvirði eins jeppa. Það kann að vera næg ástæða til að reiðast þeim sem tæmdu Sjóð níu – en það breytir samt engu um gerðir þeirra og ábyrgð á afdrifum sjóðsins. Uppgjör vegna Hrunmála hafa dregist óhæfilega og maður getur vel ímyndað sér að það sé erfitt hlutskipti að eiga yfir höfði sér þrúgandi dómsmál árum saman, jafnvel þótt maður sé þegar að afplána dóm vegna fyrri mála. Hvað sem kann að líða hugsanlegri sök manna í Hruninu er þetta óbærilegt hlutskipti, og bætist við óvild almennings og æruleysi. Auðmenn og meintir fjárplógsmenn eiga líka sín mannréttindi. Margvíslegar ástæður eru eflaust fyrir þessum drætti – verklag saksóknara, fjársvelti hjá embætti sérstaks saksóknara, eðli málanna – hitt og þetta. En ætli drjúg ástæða sé samt ekki líka hvernig vörnum er hagað í þessum málum, þar sem öllum ráðum er beitt til að tefja þau, þyrla upp moldviðri, berjast um hvert snifsi og draga allt sem mest á langinn, í von um að sakir fyrnist og gögn týnist, og samfélagið þreytist. Í rauninni græðir enginn á því, nema náttúrlega Hrunamannahreppurinn, verjendurnir, ráðgjafaherinn, almannatenglarnir og þartilráðnir mótendur almenningsálitsins.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins arfleifð heldur líka framtíð okkar Íslendinga Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins arfleifð heldur líka framtíð okkar Íslendinga Halla Hrund Logadóttir Skoðun