Innlent

Stormur í dag og á morgun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Austurhluti landsins fær versta veðrið í dag.
Austurhluti landsins fær versta veðrið í dag. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan spáir vestan stormi og jafnvel roki á austanverðu landinu um og upp úr hádegi og fram undir kvöld. Búast má við éljagangi og vindhviðum upp í 40 metra á sekúndu í Öræfum og norður með austurströndinni. Gert er ráð fyrir suðaustan hvassviðri eða stormi með rigningu og hlýnandi veðri á morgun.

Á vef Veðurstofunnar segir að nú með morgninum gangi frekar kröpp lægð inn á landið á svæðið í kringum Skeiðarársand. Á undan lægðinni sé austlæg átt, allhvöss sums staðar og rigning. Þá hvessi talsvert úr vestri og suðvestri um hádegi en þá getur vindhraði náð 25 metrum á sekúndu.

„Í ljósi þess hve kröpp lægðin er, er áhrifasvið hennar ekki mjög mikið þannig að íbúar vestantil á landinu verða hennar lítið varir á meðan austurhluti landsins fær versta veðrið. Í vestanáttinni kólnar og gæti farið í slyddu á láglendi og snjókomu til fjalla. Þessi lægð fer hratt yfir og dregur úr vindi og úrkoma strax í kvöld,“ segir á vefsíðu Veðurstofunnar.

Ballið er þó ekki búið eftir daginn í dag því á morgun má búast við annarri lægð sem mun sums staðar slá í storm. Hvassast verður sunnan og vestan til á landinu og fylgir lægðinni rigning og hlýnandi veður, sem er ekki ólíkt veðurlagi síðastliðinna vikna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×