Handbolti

Einar: Sóknarleikurinn stendur upp úr

Ingvi Þór Sæmundsson í Valshöllinni skrifar
Einar var að vonum sáttur með langþráðan sigur.
Einar var að vonum sáttur með langþráðan sigur. vísir/anton
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, sá sína menn vinna langþráðan sigur á Val í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Garðbæinga frá 13. október.

Leikurinn byrjaði þó ekki gæfulega fyrir Stjörnuna sem var 11-4 undir eftir 16 mínútur.

„Manni hefur oft liðið betur en mér fannst góður andi í liðinu. Svo sýndum við gríðarlegan karakter að koma okkur aftur inn í leikinn og sigla svo fram úr. Mér fannst þessi frammistaða endurspegla vinnuna í aðdraganda leiksins,“ sagði Einar.

Stjarnan náði góðu áhlaupi undir lok fyrri hálfleiks og hélt svo áfram á sömu braut í seinni hálfleiknum sem Garðbæingar unnu 18-12.

„Menn voru staðráðnir í að halda áfram þar sem frá var horfið og spila nákvæmlega eins í vörn og sókn. Þetta skilaði okkur góðum úrslitum í dag,“ sagði Einar.

Sveinbjörn Pétursson hefur verið besti leikmaður Stjörnunnar í vetur og hann var frábær í seinni hálfleiknum í kvöld. Einar segist þó hafa séð Sveinbjörn spila betur en hann gerði í kvöld.

„Þetta var bara ágætis leikur hjá Sveinbirni að mínu mati. Vörnin var frábær í seinni hálfleik sem og Sveinbjörn,“ sagði Einar.

„En í ljósi þess hvernig þetta er búið að vera, þá stendur sóknarleikurinn upp úr. Ég tala nú ekki um á móti sennilega sterkasta varnarliði deildarinnar. Það er virkilega öflugt að skora 31 mark á Val.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×