Viðskipti erlent

Microsoft hyggst snjallvæða heimili og kynnir raddstýrðan hátalara

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Úr auglýsingu Microsoft fyrir raddstýrðan hátalara sem kemur á markað á nýju ári.
Úr auglýsingu Microsoft fyrir raddstýrðan hátalara sem kemur á markað á nýju ári.
Tæknirisinn Microsoft birti í gær auglýsingu þar sem sjá mátti glitta í væntanlegan snjallhátalara fyrirtækisins. Hátalarinn er frá Harman Kardon en verður útbúinn stafrænu aðstoðarkonunni Cortönu úr smiðju Microsoft.

Hátalarinn á að keppa við sams konar vörur frá Google og Amazon, nefnilega Google Home og Amazon Echo.

Líkt og með Home og Echo verður hátalarinn raddstýrður. Hægt er að biðja hann um að gera ýmislegt, til að mynda að spila tónlist eða þylja upp uppskriftir.

Cortana hefur til þessa verið aðgengileg í Windows 10 stýrikerfinu en hún er byggð á samnefndri gervigreind úr tölvuleikjaseríunni Halo. Þar er Cortana bláleit heilmynd sem aðstoðar aðalpersónuna Master Chief við að drepa geimverur.

Cortana hefur þó hafið innreið sína í raunveruleikann og hyggur á fleiri áfangastaði en fyrrnefndan hátalara og Windows 10.

Sífellt fleiri heimilistæki tengjast nú internetinu og eru því útbúin æ öflugri tölvum. Þessa þróun má til að mynda sjá í prenturum, ísskápum, lásum og ofnum.

Á þriðjudag sagði Microsoft að forritarar fengju aðgang að tólum til að innleiða gervigreind Cortönu í umrædd tæki og þar með snjallvæða heimili fólks. Amazon og Google hyggja á sams konar þróun.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×