Félag Vélstjóra og málmtæknimanna hefur einnig kosið að fella kjarasamninga við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. 66 prósent þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni um samninginn kusu að fella hann. Alls tóku 333 þátt í atkvæðagreiðslunni eða 69,7 prósent þeirra sem voru á kjörskrá.
32,7 prósent sögðu já og fjórir skiluðu auðu.
VM aflýsti verkfallsaðgerðum þegar skrifað var undir samninginn þann 14. nóvember. Því þarf að reyna að semja upp á nýtt og gangi það ekki þurfa félagsmenn að kjósa aftur um verkfallsboðun.
Sjómannasamband Íslands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Sjómannafélag Íslands og Sjómanna- og Vélstjórafélag Grindavíkur felldu kjarasamninga í kosningu fyrr í vikunni. Í öllum tilvikum var niðurstaðan mjög afgerandi.
