Fjárleit er góð ástæða til að skottast á fjöll Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar 17. desember 2016 07:00 Fífill er í miklu uppáhaldi hjá Heiðu þó hann sé enginn fjárhundur, enda gríðarlega falleg skepna. Vísir/Stefán Það er einn af dumbungsdögum skammdegisins. Við Stefán ljósmyndari og Sara kona hans erum komin austur í Skaftártungu í þeim erindum að heimsækja Heiðu fjalldalabónda, eins og Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur kallar Heiðu á Ljótarstöðum. Þó ratljóst sé dugar það ekki til að við rötum hrukkulaust á leiðarenda, því hún Heiða býr sko úti á enda, heldur þvælumst við inn á vitlausa afleggjara og hin ýmsu bæjarhlöð áður en hennar kóngabláu þök blasa við. Upp rifjast vísa sem Heiða fór með á hagyrðingamóti og hafði ort eftir að ungur maður heyrðist kvarta yfir að heimreiðin til hennar væri löng. Yfir þessum ekki mun ég snökta. Eitthvað hljómar letilega gæinn. Þeir sem ekki nenna heimreiðina að hökta hafa lítið erindi í bæinn. Heiða og hundurinn Fífill fagna okkur á hlaðinu. Hún býður okkur inn en við veljum að kíkja fyrst í fjárhúsin meðan birtu nýtur. Þar hefur hún lokið við að gefa morgungjöfina og fylla fóðurganginn af heyrúllum til næstu máltíða. Móðir hennar, Helga, er að vatna og hjá henni er Frakkur, fjárhundurinn á bænum. Fífill er bara stásshundur. Féð er satt og sælt og kippir sér ekkert upp við gestaganginn. Hlaðan er orðin að fjárhúsi líka því Heiða hefur stúkað hana niður og smíðað grindur og garða, veturgömlu ærnar eru í einni stíu og þær elstu í annarri. Yngstu og elstu ærnar éta hægar en hinar og fóðrast betur ef þær eru út af fyrir sig, útskýrir bóndinn. Tignarlegur geithafur gægist upp fyrir grindur. Að sögn Heiðu gengur hann með ánum á sumrin í haganum en hefur sérherbergi eftir að hjörðin kemur í hús. Tvær lögbundnar eftirleitir eru að baki, þó vantar alltaf einhverjar kindur sem enginn veit hvort hafa lifað sumarið af, að sögn Heiðu. „Það er jafnan farið inn á afrétt öðru hvoru fram eftir vetri, ef bjart veður er, fyrst á auðri jörð og svo á sleðum, og ef menn vita af fé sem orðið hefur eftir er ekkert hætt fyrr en búið er að finna það og sækja. Svo er fjárleit líka góð ástæða til að skottast á fjöll. En ég hef ekkert farið síðan í þriðja safni enda hefur haustið ekki verið eðlilegt hjá mér, bæði framboð til Alþingis og bókastúss.“ Hrossin eru á beit skammt frá útihúsunum. Þau koma á móti Heiðu þegar hún talar til þeirra og umbera Fífil ótrúlega vel, þó hann sé aðsópsmikill. Heiða heilsar upp á hrossin sem eru á beit á túninu, þau koma þegar hún talar til þeirra. Væntumþykjan er gagnkvæm.MYND/STEFÁNMissir sig í jólainnkaupumNú göngum við til bæjar. Sólpallar úr timbri eru ekki algengir við sveitabýli þar sem ég þekki til. En Heiða hefur smíðað einn glæsilegan með grindverki utan um. Athygli vekur stæðilegur bekkur upp við húsið og annar slíkur við eldhúsborðið. Þeir reynast báðir vera handarverk Heiðu og rúma marga rassa, eins og hún segir. Helga hefur stungið læri í ofn áður en hún fór í fjárhúsin. Nú reiðir hún það fram, gullið og ilmandi með ýmsu meðlæti. Heiða stálar búrhnífinn áður en hún bregður honum í kjötið. Þetta verður engin fagurfræði, tekur hún fram. Kjötið er af veturgömlu og smakkast guðdómlega en hvar kaupa þær mæðgur nýlenduvörur „Ég er svo oft einhvers staðar á ferðinni og kippi þá með mér því sem þarf,“ segir Heiða. „En auðvitað kemur fyrir að eitthvað vantar til heimilisins og ég er ekkert voða kát þegar mamma minnist á það og ég er í einhverjum önnum.“ Stundum gleymast líka grundvallaratriði eins og í haust þegar hingað voru komin níu börn og unglingar í smölun og sátu hér við eldhúsborðið með seríós á diskunum en engin mjólk var til. Þá var brunað yfir á næsta bæ, Snæbýli, þar sem rekið er kúabú og málinu reddað. Eldhúsborðið á Ljótarstöðum er stórt og á það er kominn jóladúkur. Heiða tekur nefnilega jólin með trompi eins og annað, sápuþvær til dæmis hvern fersentimetra í húsinu. „Ég er dálítið ýkt í öllu, líka í jólahaldinu. Hreingerningamanían er bara eitt merki þess, púðar og teppi fá yfirhalningu líka, allt slíkt fer í þvottavélina sem er alveg á yfirsnúningi,“ segir hún hlæjandi. „Ég tek bökunarskorpu og missi mig í innkaupum og það er til nammi og matur langt fram á næsta ár. Svo kaupi ég alltof dýrar jólagjafir og annað eftir því. Það er ekki hægt að koma við greiðslukortin eftir bæjarferðirnar, þau eru svo heit!“ Aðdragandi hátíðanna er annars hefðbundinn á Ljótarstöðum, að sögn Heiðu. „Það er farið á bæina og svo erum við svo heppin hér í Tungunni að eiga í okkar röðum skógræktarbændur sem búa á Giljalandi. Þangað förum við að ná í jólatré, tökum bara það sem þarf að grisja.“ Ég sný mér að Helgu og spyr: Hefur hún dugnaðinn frá þér, stelpan? Svarið er ekta skaftfellskt: „Nei, ég man ekki eftir að hafa gert hreint eða nokkurn skapaðan hlut!“ Skyldu þær mæðgur vera tvær saman á jólunum eins og flesta aðra daga? „Nei, Fanney systir kemur og dóttir hennar, hún María. Þær hafa gert það frá því María var þriggja, fjögurra ára og eru góð jólasending. Fanney er grunnskólastjóri svo hún fær góð jólafrí. Kærastinn hennar Maríu, Pálmar Atli, verður væntanlega eitthvað að skottast hér líka, hann á sitt fólk á Klaustri. Þær mæðgur bjuggu í Þistilfirðinum þegar María var lítil en komu samt brunandi hingað heim fyrir jól. Svo var styttra fyrir þær að koma frá Vestmannaeyjum meðan þær voru þar og enn þægilegra núna þegar þær búa í Hveragerði. Á aðfangadagsmorgun hefur Ásta systir líka alltaf komið. Hún bjó lengi í Ytri-Ásum hér í Tungunni og hefur verið þar á jólunum þó hún sé flutt þaðan. Hún kom alltaf fyrst með strákana tvo, svo strákana þrjá og svo bara yngsta strákinn núna því hinir eru löngu farnir. Þegar þau koma er skipst á jólapökkum og farið í smákökuboxin, Ásta spáir í bolla og það er drukkið Baileys. Það er ekkert klikkað á því.“ Auðvitað er gefið ríflega á garðann tvisvar á aðfangadag eins og aðra vetrardaga á Ljótarstöðum og svo verður heilagt með kvöldinu. ~Við hlustum að sjálfsögðu á útvarpsmessuna klukkan sex og borðum eðalhangikjöt sem Valur í Úthlíð reykir fyrir okkur. Mér finnst alltaf mjög gaman á jólunum og þau eru skipulagður frítími,“ segir Heiða. En hvað finnst henni best að fá í jólagjöf? „Bækur eru voða vinsælar. Svo bara hvað sem er.“Heitir eftir Heiðu í Ölpunum Fyrir þá sem ekki vita þá upplýsist hér að Heiða á Ljótarstöðum heitir eftir sögupersónunni Heiðu sem á heima í Ölpunum og Johanna Spyri skrifaði um gríðarlega vinsælt lesefni. Nú stefnir í að bókin um Heiðu fjalldalabónda eftir Steinunni Sigurðardóttur verði til á flestum heimilum Íslands. En hvernig bækur fílar Heiða sjálf? Ég sagði Steinunni að ég væri alger gufa þegar kæmi að því að lóga skepnum og veiddi til dæmis aldrei, en nennti helst ekki að lesa bækur nema einhver væri drepinn í þeim! Steinunn varð hugsi og sagði: „Já, það er aldrei neinn drepinn í mínum bókum.“ „Reddaðu þessu í næstu bók,“ sagði ég án umhugsunar en áttaði mig og flýtti mér að segja: „Nei, ekki í næstu bók,“ því það var bókin um mig!“ Já, segðu okkur hvernig var að hafa Steinunni inni á gafli í lengri tíma. Það fer ekkert lengra. Djók! „Það var stórmagnað. Þó alls konar fólk hafi komið hér þá var ég satt að segja nervus fyrir því að hingað væri að koma frægt skáld utan úr heimi til dvalar á heiðarbýlinu. En ég sagði henni, eins og öllum öðrum sem hingað koma, að hér gilti bara frumskógarlögmálið. Það er ekki alltaf tími til að stumra yfir gestum þannig að ef þeir finna eitthvað ætilegt í húsinu, þá eiga þeir að éta það áður en einhver annar gerir það. Steinunn fékk námskeið á kaffikönnuna og svo bara bjargaði hún sér. Leysti þetta allt mjög vel og var algerlega laus við allt snobb eða vesen. Svo feimnin við stórskáldið var fljót að fara af mér. Mamma var auðvitað betri en enginn í eldhúsinu en hún hefur verið mjög slæm í fótum og var ekki eins spræk þegar Steinunn var hér og hún er nú.“ Nú ert þú svo lifandi í bókinni og margir spyrja sig örugglega hvort þú skrifir ekki hluta hennar sjálf. „Bara það sem haft er eftir mér á málþingum og hagyrðingamótum. Sumar færslur eru líka teknar upp af fésbókinni. Þetta er mjög sérstök bók að því leyti að hún er byggð á alls konar brotum sem Steinunn raðar saman í frábæra heild.“ Meðal þess sem Heiða les eru ljóðabækur og svo verður henni margt að yrkisefni sjálfri því hún er snjall hagyrðingur. „Það er okkar böl hér á bæ,“ segir hún. „Mikið áhættuatriði því það sem okkur dettur í hug er ekki allt til að auka vinsældir og síst til þess fallið að fara á flakk. Það grípur mig því stundum taugaveiklun ef ég fatta að síminn minn hefur orðið eftir einhvers staðar, fullur af einhverjum helvítis dónaskap um náungann. Ég sendi nefnilega oft vísur á stelpurnar, systur mínar, og fæ svör í sömu mynt. Við kveðumst á í SMS. Það er mikil dægrastytting í því þegar ég hangi á dráttarvélinni sólarhringana út, að hafa eitthvað svona fyrir stafni.“ „Jæja, vinkona, hvað segirðu gott?!"Búið stendur og fellur með bóndanumHvað finnst svo Heiðu best við að vera bóndi? „Það er svo margt. Þó fólk tali oft um bindinguna þá finnst mér ótrúlega mikið frelsi við að ráða mér sjálf. Allt veltur á eigin ákvarðanatöku því búið stendur og fellur með bóndanum. Svo er það víðáttan og nálægðin við skepnur og náttúru sem spilar stóra rullu. Að það sé hluti af vinnunni manns að fara á fjöll og leita að kindum, það er bara dýrðlegt. Ég þarf heldur ekki að borga rándýr líkamsræktarstöðvarkort en er í ágætu formi bara við vinnu, útiveru og hreyfingu.“ Hún viðurkennir að vinnan geti orðið mikil í törnum, í sauðburði, við jarðabætur, heyskap og göngur til dæmis. „Svo koma rólegri tímar og í janúar leyfir maður sér að vera alveg sulturólegur. Það er kuldamánuðurinn. Febrúar og mars eru kleppsvinnutímar hjá okkur fósturteljurum. Annars væri febrúar rólegur líka og fyrri hluti mars en svo er farið að rýja og undirbúa vorið.“ Undantekning verður á rólegheitum janúarmánaðar núna hjá Heiðu því hún er að fara til Nýja-Sjálands að keppa á heimsmeistaramóti í rúningi. „Þetta verður rúningsþrældómur, viðurkennir hún. Við förum tvö, ég og Hafliði Sævarsson, bóndi í Fossárdal í Berufirði. Verðum fyrst hluti af gengi sem vinnur við rúning og fáum þar þjálfun og tilsögn og á heimsmeistaramótinu keppum við svo tvö fyrir Íslands hönd.“ Eiga Íslendingar einhvern séns í Nýsjálendinga? spyr Stefán ljósmyndari. „Nei, nei. Það er bara gaman að taka þátt. Reyndar er hann Hafliði flinkur, hann er tvöfaldur Íslandsmeistari og honum gekk vel þegar við kepptum í Bretlandi í fyrra. Konan hans og systir hennar koma til okkar upp úr 20. janúar og þá förum við öll í ferðalag um Nýja-Sjáland. Það er víst alveg rosalega flott land og þar eru heldur engin rándýr eins og í Ástralíu, þannig að fé er engin hætta búin þó það gangi úti.“ Þegar Heiða mætir aftur norður í svalann fer hún beint í fósturtalningar í ám víða um land, ásamt vinkonu sinni. „Ég verð orðin alltof sein, í rauninni. Vaninn er að byrja 3. febrúar svo við verðum að koma einhverjum verkum af okkur núna. Það fór líka um talningarbændurna mína þegar ég sendi þeim snapp í ágúst um skráningu mína á heimsmeistaramótið. Fékk strax svar frá einum: Áttir þú ekki að vera að telja fóstur í febrúar?“ Heiðu finnst umræðan um íslenska bændur oft einkennast af vanþekkingu á lífi þeirra og starfi. „Auðvitað snýst allt um peninga. Fólk þyrfti að kynna sér það sem er á bak við framleiðslu bændanna og hvernig peningarnir skila sér aftur inn í hagkerfið. Íslenskur landbúnaður er ekki styrktur meira en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Fyrirkomulaginu þar er bara oft öðruvísi háttað, styrkirnir geta skipst í gripagreiðslur og búsetugreiðslur og fólk fær jafnvel greitt fyrir að fóstra sérstök tré á landareigninni. Landbúnaður er alls staðar ríkisstyrktur í nærliggjandi löndum og ef við ætlum að flytja inn afurðir þaðan er væntanlega annað ríki búið að niðurgreiða þær. Þetta er flókið en bændurnir fá rýtingana og ég tek það nærri mér þegar talað er um þá sem landníðinga. Eða þegar rætt er um ríkisstyrkt dýraníð, eins og eftir að nýju búvörusamningarnir voru samþykktir. Dýraverndarlögin sjá til þess að skepnur eru teknar af bændum ef þeir verða uppvísir að vanrækslu og þá fá þeir ekki styrki. Þannig að það eru önnur lög sem dekka það en búvörusamningarnir. Gallinn við kerfið er að það er gríðarlega flókið. Það er eitt að segja fólki að kynna sér það og annað að það geti það, því það er frumskógur. Ég þekki kannski best sauðfjársamningana, það er verið að reyna að nútímavæða þá, til dæmis er áherslan á lífrænan búskap þrefölduð frá gömlu samningunum og á bæði afréttum og heimalöndum er gerð krafa um fleiri landbótaáætlanir en áður, stífa stýringu á beit og úrbótaleiðir ef þarf. Ég er mjög fylgjandi því.“ Hefur þú reynt að reikna þér mánaðarkaup? „Nei, það þýðir ekkert að ergja sig með því. Ef ég fleyti draslinu frá mánuði til mánaðar og ári til árs er ég sátt. Ég tel ekki vinnustundir, þá væri ég löngu farin, en það er svo margt sem kemur í staðinn fyrir peninga þó maður verði að eiga þá líka. Meðan maður hefur allt til alls, gott húsnæði, getur haldið vélunum gangandi og farið til útlanda þá er ekki yfir neinu að kvarta. Ég tók við búinu í ákveðinni niðurníðslu og það hefur kostað mikið að koma því í það stand sem það er í en fósturtalningarnar eru vel borgaðar, enda þrælavinna. Ef ég hefði þær ekki yrði ég að finna eitthvað annað til að fleyta mér áfram á. Ég var líka í rúningi í nokkur ár.“Í fjallasalHeiða er varaþingmaður VG og á örugglega eftir að fara í pontu á hinu háa Alþingi. Hún kveðst þó ekki byrjuð að hugleiða efnið í jómfrúræðuna. „Mínar áherslur eru á umhverfismál, landbúnað og jafnrétti og þá meina ég jafnrétti allra,“ segir hún og í lokin kemur hér vísa sem ég heyrði hana flytja á hagyrðingamóti fyrir nokkrum árum. Skaftártungan mig fóstrar og fæðir, í fjallasal kaus ég að lifa og vinna og ekkert mig viðlíka í heiminum hræðir og heimskuleg áform virkjunarsinna.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. desember 2016. Alþingi Lífið Menning Mest lesið Kveður samfélagsmiðla fyrir fullt og allt Lífið Valgeir afhenti Ingu textabrot úr laginu Sigurjón digri Lífið Óvæntur glaðningur í veggjunum Lífið Dóttir Hólmfríðar og Jóhanns Bergs komin með nafn Lífið Fréttatía vikunnar: Fuglaflensa, Facebook og fjöldi Lífið Skilnaður eftir tuttugu ára samband Lífið Láttu draumana rætast með Úrval Útsýn Lífið samstarf Með þvottaklemmu á sér í beinni frá eldunum Lífið Frumsýning á Vísi: Hafa aldrei gengið eins langt og í Alheimsdraumnum Lífið Harmleikur í Hollywood: Hús fræga fólksins fuðra upp Lífið Fleiri fréttir Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Það er einn af dumbungsdögum skammdegisins. Við Stefán ljósmyndari og Sara kona hans erum komin austur í Skaftártungu í þeim erindum að heimsækja Heiðu fjalldalabónda, eins og Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur kallar Heiðu á Ljótarstöðum. Þó ratljóst sé dugar það ekki til að við rötum hrukkulaust á leiðarenda, því hún Heiða býr sko úti á enda, heldur þvælumst við inn á vitlausa afleggjara og hin ýmsu bæjarhlöð áður en hennar kóngabláu þök blasa við. Upp rifjast vísa sem Heiða fór með á hagyrðingamóti og hafði ort eftir að ungur maður heyrðist kvarta yfir að heimreiðin til hennar væri löng. Yfir þessum ekki mun ég snökta. Eitthvað hljómar letilega gæinn. Þeir sem ekki nenna heimreiðina að hökta hafa lítið erindi í bæinn. Heiða og hundurinn Fífill fagna okkur á hlaðinu. Hún býður okkur inn en við veljum að kíkja fyrst í fjárhúsin meðan birtu nýtur. Þar hefur hún lokið við að gefa morgungjöfina og fylla fóðurganginn af heyrúllum til næstu máltíða. Móðir hennar, Helga, er að vatna og hjá henni er Frakkur, fjárhundurinn á bænum. Fífill er bara stásshundur. Féð er satt og sælt og kippir sér ekkert upp við gestaganginn. Hlaðan er orðin að fjárhúsi líka því Heiða hefur stúkað hana niður og smíðað grindur og garða, veturgömlu ærnar eru í einni stíu og þær elstu í annarri. Yngstu og elstu ærnar éta hægar en hinar og fóðrast betur ef þær eru út af fyrir sig, útskýrir bóndinn. Tignarlegur geithafur gægist upp fyrir grindur. Að sögn Heiðu gengur hann með ánum á sumrin í haganum en hefur sérherbergi eftir að hjörðin kemur í hús. Tvær lögbundnar eftirleitir eru að baki, þó vantar alltaf einhverjar kindur sem enginn veit hvort hafa lifað sumarið af, að sögn Heiðu. „Það er jafnan farið inn á afrétt öðru hvoru fram eftir vetri, ef bjart veður er, fyrst á auðri jörð og svo á sleðum, og ef menn vita af fé sem orðið hefur eftir er ekkert hætt fyrr en búið er að finna það og sækja. Svo er fjárleit líka góð ástæða til að skottast á fjöll. En ég hef ekkert farið síðan í þriðja safni enda hefur haustið ekki verið eðlilegt hjá mér, bæði framboð til Alþingis og bókastúss.“ Hrossin eru á beit skammt frá útihúsunum. Þau koma á móti Heiðu þegar hún talar til þeirra og umbera Fífil ótrúlega vel, þó hann sé aðsópsmikill. Heiða heilsar upp á hrossin sem eru á beit á túninu, þau koma þegar hún talar til þeirra. Væntumþykjan er gagnkvæm.MYND/STEFÁNMissir sig í jólainnkaupumNú göngum við til bæjar. Sólpallar úr timbri eru ekki algengir við sveitabýli þar sem ég þekki til. En Heiða hefur smíðað einn glæsilegan með grindverki utan um. Athygli vekur stæðilegur bekkur upp við húsið og annar slíkur við eldhúsborðið. Þeir reynast báðir vera handarverk Heiðu og rúma marga rassa, eins og hún segir. Helga hefur stungið læri í ofn áður en hún fór í fjárhúsin. Nú reiðir hún það fram, gullið og ilmandi með ýmsu meðlæti. Heiða stálar búrhnífinn áður en hún bregður honum í kjötið. Þetta verður engin fagurfræði, tekur hún fram. Kjötið er af veturgömlu og smakkast guðdómlega en hvar kaupa þær mæðgur nýlenduvörur „Ég er svo oft einhvers staðar á ferðinni og kippi þá með mér því sem þarf,“ segir Heiða. „En auðvitað kemur fyrir að eitthvað vantar til heimilisins og ég er ekkert voða kát þegar mamma minnist á það og ég er í einhverjum önnum.“ Stundum gleymast líka grundvallaratriði eins og í haust þegar hingað voru komin níu börn og unglingar í smölun og sátu hér við eldhúsborðið með seríós á diskunum en engin mjólk var til. Þá var brunað yfir á næsta bæ, Snæbýli, þar sem rekið er kúabú og málinu reddað. Eldhúsborðið á Ljótarstöðum er stórt og á það er kominn jóladúkur. Heiða tekur nefnilega jólin með trompi eins og annað, sápuþvær til dæmis hvern fersentimetra í húsinu. „Ég er dálítið ýkt í öllu, líka í jólahaldinu. Hreingerningamanían er bara eitt merki þess, púðar og teppi fá yfirhalningu líka, allt slíkt fer í þvottavélina sem er alveg á yfirsnúningi,“ segir hún hlæjandi. „Ég tek bökunarskorpu og missi mig í innkaupum og það er til nammi og matur langt fram á næsta ár. Svo kaupi ég alltof dýrar jólagjafir og annað eftir því. Það er ekki hægt að koma við greiðslukortin eftir bæjarferðirnar, þau eru svo heit!“ Aðdragandi hátíðanna er annars hefðbundinn á Ljótarstöðum, að sögn Heiðu. „Það er farið á bæina og svo erum við svo heppin hér í Tungunni að eiga í okkar röðum skógræktarbændur sem búa á Giljalandi. Þangað förum við að ná í jólatré, tökum bara það sem þarf að grisja.“ Ég sný mér að Helgu og spyr: Hefur hún dugnaðinn frá þér, stelpan? Svarið er ekta skaftfellskt: „Nei, ég man ekki eftir að hafa gert hreint eða nokkurn skapaðan hlut!“ Skyldu þær mæðgur vera tvær saman á jólunum eins og flesta aðra daga? „Nei, Fanney systir kemur og dóttir hennar, hún María. Þær hafa gert það frá því María var þriggja, fjögurra ára og eru góð jólasending. Fanney er grunnskólastjóri svo hún fær góð jólafrí. Kærastinn hennar Maríu, Pálmar Atli, verður væntanlega eitthvað að skottast hér líka, hann á sitt fólk á Klaustri. Þær mæðgur bjuggu í Þistilfirðinum þegar María var lítil en komu samt brunandi hingað heim fyrir jól. Svo var styttra fyrir þær að koma frá Vestmannaeyjum meðan þær voru þar og enn þægilegra núna þegar þær búa í Hveragerði. Á aðfangadagsmorgun hefur Ásta systir líka alltaf komið. Hún bjó lengi í Ytri-Ásum hér í Tungunni og hefur verið þar á jólunum þó hún sé flutt þaðan. Hún kom alltaf fyrst með strákana tvo, svo strákana þrjá og svo bara yngsta strákinn núna því hinir eru löngu farnir. Þegar þau koma er skipst á jólapökkum og farið í smákökuboxin, Ásta spáir í bolla og það er drukkið Baileys. Það er ekkert klikkað á því.“ Auðvitað er gefið ríflega á garðann tvisvar á aðfangadag eins og aðra vetrardaga á Ljótarstöðum og svo verður heilagt með kvöldinu. ~Við hlustum að sjálfsögðu á útvarpsmessuna klukkan sex og borðum eðalhangikjöt sem Valur í Úthlíð reykir fyrir okkur. Mér finnst alltaf mjög gaman á jólunum og þau eru skipulagður frítími,“ segir Heiða. En hvað finnst henni best að fá í jólagjöf? „Bækur eru voða vinsælar. Svo bara hvað sem er.“Heitir eftir Heiðu í Ölpunum Fyrir þá sem ekki vita þá upplýsist hér að Heiða á Ljótarstöðum heitir eftir sögupersónunni Heiðu sem á heima í Ölpunum og Johanna Spyri skrifaði um gríðarlega vinsælt lesefni. Nú stefnir í að bókin um Heiðu fjalldalabónda eftir Steinunni Sigurðardóttur verði til á flestum heimilum Íslands. En hvernig bækur fílar Heiða sjálf? Ég sagði Steinunni að ég væri alger gufa þegar kæmi að því að lóga skepnum og veiddi til dæmis aldrei, en nennti helst ekki að lesa bækur nema einhver væri drepinn í þeim! Steinunn varð hugsi og sagði: „Já, það er aldrei neinn drepinn í mínum bókum.“ „Reddaðu þessu í næstu bók,“ sagði ég án umhugsunar en áttaði mig og flýtti mér að segja: „Nei, ekki í næstu bók,“ því það var bókin um mig!“ Já, segðu okkur hvernig var að hafa Steinunni inni á gafli í lengri tíma. Það fer ekkert lengra. Djók! „Það var stórmagnað. Þó alls konar fólk hafi komið hér þá var ég satt að segja nervus fyrir því að hingað væri að koma frægt skáld utan úr heimi til dvalar á heiðarbýlinu. En ég sagði henni, eins og öllum öðrum sem hingað koma, að hér gilti bara frumskógarlögmálið. Það er ekki alltaf tími til að stumra yfir gestum þannig að ef þeir finna eitthvað ætilegt í húsinu, þá eiga þeir að éta það áður en einhver annar gerir það. Steinunn fékk námskeið á kaffikönnuna og svo bara bjargaði hún sér. Leysti þetta allt mjög vel og var algerlega laus við allt snobb eða vesen. Svo feimnin við stórskáldið var fljót að fara af mér. Mamma var auðvitað betri en enginn í eldhúsinu en hún hefur verið mjög slæm í fótum og var ekki eins spræk þegar Steinunn var hér og hún er nú.“ Nú ert þú svo lifandi í bókinni og margir spyrja sig örugglega hvort þú skrifir ekki hluta hennar sjálf. „Bara það sem haft er eftir mér á málþingum og hagyrðingamótum. Sumar færslur eru líka teknar upp af fésbókinni. Þetta er mjög sérstök bók að því leyti að hún er byggð á alls konar brotum sem Steinunn raðar saman í frábæra heild.“ Meðal þess sem Heiða les eru ljóðabækur og svo verður henni margt að yrkisefni sjálfri því hún er snjall hagyrðingur. „Það er okkar böl hér á bæ,“ segir hún. „Mikið áhættuatriði því það sem okkur dettur í hug er ekki allt til að auka vinsældir og síst til þess fallið að fara á flakk. Það grípur mig því stundum taugaveiklun ef ég fatta að síminn minn hefur orðið eftir einhvers staðar, fullur af einhverjum helvítis dónaskap um náungann. Ég sendi nefnilega oft vísur á stelpurnar, systur mínar, og fæ svör í sömu mynt. Við kveðumst á í SMS. Það er mikil dægrastytting í því þegar ég hangi á dráttarvélinni sólarhringana út, að hafa eitthvað svona fyrir stafni.“ „Jæja, vinkona, hvað segirðu gott?!"Búið stendur og fellur með bóndanumHvað finnst svo Heiðu best við að vera bóndi? „Það er svo margt. Þó fólk tali oft um bindinguna þá finnst mér ótrúlega mikið frelsi við að ráða mér sjálf. Allt veltur á eigin ákvarðanatöku því búið stendur og fellur með bóndanum. Svo er það víðáttan og nálægðin við skepnur og náttúru sem spilar stóra rullu. Að það sé hluti af vinnunni manns að fara á fjöll og leita að kindum, það er bara dýrðlegt. Ég þarf heldur ekki að borga rándýr líkamsræktarstöðvarkort en er í ágætu formi bara við vinnu, útiveru og hreyfingu.“ Hún viðurkennir að vinnan geti orðið mikil í törnum, í sauðburði, við jarðabætur, heyskap og göngur til dæmis. „Svo koma rólegri tímar og í janúar leyfir maður sér að vera alveg sulturólegur. Það er kuldamánuðurinn. Febrúar og mars eru kleppsvinnutímar hjá okkur fósturteljurum. Annars væri febrúar rólegur líka og fyrri hluti mars en svo er farið að rýja og undirbúa vorið.“ Undantekning verður á rólegheitum janúarmánaðar núna hjá Heiðu því hún er að fara til Nýja-Sjálands að keppa á heimsmeistaramóti í rúningi. „Þetta verður rúningsþrældómur, viðurkennir hún. Við förum tvö, ég og Hafliði Sævarsson, bóndi í Fossárdal í Berufirði. Verðum fyrst hluti af gengi sem vinnur við rúning og fáum þar þjálfun og tilsögn og á heimsmeistaramótinu keppum við svo tvö fyrir Íslands hönd.“ Eiga Íslendingar einhvern séns í Nýsjálendinga? spyr Stefán ljósmyndari. „Nei, nei. Það er bara gaman að taka þátt. Reyndar er hann Hafliði flinkur, hann er tvöfaldur Íslandsmeistari og honum gekk vel þegar við kepptum í Bretlandi í fyrra. Konan hans og systir hennar koma til okkar upp úr 20. janúar og þá förum við öll í ferðalag um Nýja-Sjáland. Það er víst alveg rosalega flott land og þar eru heldur engin rándýr eins og í Ástralíu, þannig að fé er engin hætta búin þó það gangi úti.“ Þegar Heiða mætir aftur norður í svalann fer hún beint í fósturtalningar í ám víða um land, ásamt vinkonu sinni. „Ég verð orðin alltof sein, í rauninni. Vaninn er að byrja 3. febrúar svo við verðum að koma einhverjum verkum af okkur núna. Það fór líka um talningarbændurna mína þegar ég sendi þeim snapp í ágúst um skráningu mína á heimsmeistaramótið. Fékk strax svar frá einum: Áttir þú ekki að vera að telja fóstur í febrúar?“ Heiðu finnst umræðan um íslenska bændur oft einkennast af vanþekkingu á lífi þeirra og starfi. „Auðvitað snýst allt um peninga. Fólk þyrfti að kynna sér það sem er á bak við framleiðslu bændanna og hvernig peningarnir skila sér aftur inn í hagkerfið. Íslenskur landbúnaður er ekki styrktur meira en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Fyrirkomulaginu þar er bara oft öðruvísi háttað, styrkirnir geta skipst í gripagreiðslur og búsetugreiðslur og fólk fær jafnvel greitt fyrir að fóstra sérstök tré á landareigninni. Landbúnaður er alls staðar ríkisstyrktur í nærliggjandi löndum og ef við ætlum að flytja inn afurðir þaðan er væntanlega annað ríki búið að niðurgreiða þær. Þetta er flókið en bændurnir fá rýtingana og ég tek það nærri mér þegar talað er um þá sem landníðinga. Eða þegar rætt er um ríkisstyrkt dýraníð, eins og eftir að nýju búvörusamningarnir voru samþykktir. Dýraverndarlögin sjá til þess að skepnur eru teknar af bændum ef þeir verða uppvísir að vanrækslu og þá fá þeir ekki styrki. Þannig að það eru önnur lög sem dekka það en búvörusamningarnir. Gallinn við kerfið er að það er gríðarlega flókið. Það er eitt að segja fólki að kynna sér það og annað að það geti það, því það er frumskógur. Ég þekki kannski best sauðfjársamningana, það er verið að reyna að nútímavæða þá, til dæmis er áherslan á lífrænan búskap þrefölduð frá gömlu samningunum og á bæði afréttum og heimalöndum er gerð krafa um fleiri landbótaáætlanir en áður, stífa stýringu á beit og úrbótaleiðir ef þarf. Ég er mjög fylgjandi því.“ Hefur þú reynt að reikna þér mánaðarkaup? „Nei, það þýðir ekkert að ergja sig með því. Ef ég fleyti draslinu frá mánuði til mánaðar og ári til árs er ég sátt. Ég tel ekki vinnustundir, þá væri ég löngu farin, en það er svo margt sem kemur í staðinn fyrir peninga þó maður verði að eiga þá líka. Meðan maður hefur allt til alls, gott húsnæði, getur haldið vélunum gangandi og farið til útlanda þá er ekki yfir neinu að kvarta. Ég tók við búinu í ákveðinni niðurníðslu og það hefur kostað mikið að koma því í það stand sem það er í en fósturtalningarnar eru vel borgaðar, enda þrælavinna. Ef ég hefði þær ekki yrði ég að finna eitthvað annað til að fleyta mér áfram á. Ég var líka í rúningi í nokkur ár.“Í fjallasalHeiða er varaþingmaður VG og á örugglega eftir að fara í pontu á hinu háa Alþingi. Hún kveðst þó ekki byrjuð að hugleiða efnið í jómfrúræðuna. „Mínar áherslur eru á umhverfismál, landbúnað og jafnrétti og þá meina ég jafnrétti allra,“ segir hún og í lokin kemur hér vísa sem ég heyrði hana flytja á hagyrðingamóti fyrir nokkrum árum. Skaftártungan mig fóstrar og fæðir, í fjallasal kaus ég að lifa og vinna og ekkert mig viðlíka í heiminum hræðir og heimskuleg áform virkjunarsinna.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. desember 2016.
Alþingi Lífið Menning Mest lesið Kveður samfélagsmiðla fyrir fullt og allt Lífið Valgeir afhenti Ingu textabrot úr laginu Sigurjón digri Lífið Óvæntur glaðningur í veggjunum Lífið Dóttir Hólmfríðar og Jóhanns Bergs komin með nafn Lífið Fréttatía vikunnar: Fuglaflensa, Facebook og fjöldi Lífið Skilnaður eftir tuttugu ára samband Lífið Láttu draumana rætast með Úrval Útsýn Lífið samstarf Með þvottaklemmu á sér í beinni frá eldunum Lífið Frumsýning á Vísi: Hafa aldrei gengið eins langt og í Alheimsdraumnum Lífið Harmleikur í Hollywood: Hús fræga fólksins fuðra upp Lífið Fleiri fréttir Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira