Vistvænisýki Guðmundur Andri Thorsson skrifar 5. desember 2016 09:38 Eitt af þessum afhjúpandi atvikum sem segja sögu heillar aldar var í sjónvarpsfréttum á dögunum: Ráðherra svonefndra og sjálfskipaðra „atvinnuvega“, sjálfur yfirmaður matvælaframleiðslunnar í landinu, Gunnar Bragi Sveinsson, gat ekki svarað því í viðtali undir hvaða ráðherra málefni neytenda heyrðu. Hann hafði sýnilega aldrei velt því fyrir sér. Naumast virtist hafa hvarflað að honum að neytendamál væru yfirhöfuð málaflokkur eða að neytendur hefðu hagsmuna að gæta þegar kæmi að matvælaframleiðslunni í landinu – kannski fannst honum að ámóta nærtækt væri að fiskarnir í sjónum hefðu sinn sérstaka ráðherra til að gæta hagsmuna sinna – nú eða hænurnar í búrunum. Rétta svarið var víst „Innanríkisráðuneytið“ þar sem málefni neytenda eru víst geymd í næstu skúffu við málefni hælisleitenda – og sinnt af viðlíka alúð. Saklaus er hver … Eftirlitsiðnaðurinn er mikið vandamál hér á landi – það er að segja skorturinn á honum. Fylgst er með afbrotum gagnvart neytendum en lítið sem ekkert tekið á þeim. Ef ekki væri fyrir Kastljós væru eigendur Brúneggja enn að framleiða svikna vöru undir vökulum en úrræðalitlum augum eftirlitsaðila, sem fá þau skilaboð úr ráðuneytum, að aðhafast ekki þó að glæpurinn liggi fyrir. Eins og stundum í íslenska þagnarsamfélaginu: það er eitthvað í þessari sögu allri sem aldrei er beinlínis sagt – en allir skilja fyrr en skellur í tönnum. Svo skall í tönnum: Kastljós komst á snoðir um ósómann. Allt kom þetta á daginn í kjölfar makalausrar frásagnar þáttarins af áralöngum vörusvikum Brúneggja, sem selt hafa egg sín dýrum dómum undir merkjum vistvænnar framleiðslu, og við mörg keypt eggin í þeirri trú að fuglarnir nytu betra atlætis en annars staðar, þar sem þessi vottun er ekki. Framleiðslan hefur þvert á móti einkennst af þeirri rótgrónu hugmynd að skepnur séu bara efni í afurð, skynlausir massar, og hafi ekkert virði í sjálfum sér, eins og hverjar aðrar skrúfur á færibandi. Afleiðingin: alltof þröng búr með tilheyrandi vanlíðan og margs konar fylgikvillum; aðbúnaðurinn síst betri en í hefðbundnum eggjabúum, kannski verri. Þessi kaldrifjuðu svik, þar sem saman fer ill meðferð á dýrum og útmældar blekkingar gagnvart neytendum, hafa notið sérstakrar verndar í kerfinu, þar sem tveimur dýralæknum varð ekkert ágengt við að vekja athygli á málinu, sem skyldi tekið á í kyrrþey og djúpri þögn samkvæmt þeirri reglu að saklaus sé hver maður þar til upp um hann kann að komast. Heiðraðu skálkinn Þetta vitnar um hugsunarhátt sem verður til á löngum tíma í kerfi þar sem framleiðandinn nýtur fullrar verndar og allra réttinda en kaupandinn er réttlaus með öllu. Þetta er ekki vegna fúlmennsku viðkomandi eigenda – þeir eru börn kerfisins. Komið var á fót vottunarmerkingum um vistvæna framleiðslu og skyldi það vera á vegum búnaðarsamtakanna að hafa eftirlit með þeirri vottun. Lítið virðist hafa orðið úr því eftirliti, ef nokkuð: af hálfu búnaðarsamtakanna var nánast eins og litið á þessa vottun sem kænlega sölubrellu handa kjánunum í þéttbýlinu sem ganga um með sínar vistvænisgrillur. Neytendur eru að vísu yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, eiginlega öll þjóðin, en það er eins og enn eimi eftir af þeim hugsunarhætti að þeir séu nokkurs konar bráð, veiðistofn, auðlind. Af hverju er þetta svona? Allt breytist – en ekki samstundis, ekki jafnhliða. Hugsunarhættir sem fylgja horfnum þjóðfélagsháttum geta lúrt lengi í stofnunum og heilabúum samfélaga löngu eftir að þeir eru hættir að vísa á lifandi veruleika. Valdastofnanir lifa sjálfstæðu lífi löngu eftir að þær hafa orðið viðskila við umbjóðendur sína eða erindi: við sjáum þetta í stirðnuðum siðum sem fylgja trúarbrögðum, og voru einhvern tímann í samræmi við staðhætti, tæknistig og náttúrufar, en hafa fyrir löngu orðið að tæki til að heimta og mæla algjöra hlýðni, kúgunartæki. Stundum virðist manni að enn sé furðu ríkjandi víða í stjórnkerfi og hjá ráðandi öflum hér á landi þankagangur frá þeirri tíð þegar hér var nær algjört bændasamfélag; og fólk sem ekki var bændur var annars, þriðja og fjórða flokks. Maður veit að gott fólk er í bændastétt eins og annars staðar – og hugsar ekki svona – en þessi hugsunarháttur loðir samt enn við í kerfinu, eins og trénuð trúarbrögð. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Brúneggjamálið Mest lesið „Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun 27-faldur hagnaður!? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun Laumu risinn í landsframleiðslunni Ása Berglind Hjálmarsdóttir Skoðun Er barnið sjúkt í sykur? Elísabet Konráðsdóttir,Margrét Sigmundsdóttir Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Breytum þessari sérhagsmunagæslu Aðalsteinn Leifsson Skoðun Bleiki fíllinn í herberginu Karólína Helga Símonardóttir Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Samfylkingin er með plan um að lögfesta leikskólastigið Dagbjört Hákonardóttir Skoðun
Eitt af þessum afhjúpandi atvikum sem segja sögu heillar aldar var í sjónvarpsfréttum á dögunum: Ráðherra svonefndra og sjálfskipaðra „atvinnuvega“, sjálfur yfirmaður matvælaframleiðslunnar í landinu, Gunnar Bragi Sveinsson, gat ekki svarað því í viðtali undir hvaða ráðherra málefni neytenda heyrðu. Hann hafði sýnilega aldrei velt því fyrir sér. Naumast virtist hafa hvarflað að honum að neytendamál væru yfirhöfuð málaflokkur eða að neytendur hefðu hagsmuna að gæta þegar kæmi að matvælaframleiðslunni í landinu – kannski fannst honum að ámóta nærtækt væri að fiskarnir í sjónum hefðu sinn sérstaka ráðherra til að gæta hagsmuna sinna – nú eða hænurnar í búrunum. Rétta svarið var víst „Innanríkisráðuneytið“ þar sem málefni neytenda eru víst geymd í næstu skúffu við málefni hælisleitenda – og sinnt af viðlíka alúð. Saklaus er hver … Eftirlitsiðnaðurinn er mikið vandamál hér á landi – það er að segja skorturinn á honum. Fylgst er með afbrotum gagnvart neytendum en lítið sem ekkert tekið á þeim. Ef ekki væri fyrir Kastljós væru eigendur Brúneggja enn að framleiða svikna vöru undir vökulum en úrræðalitlum augum eftirlitsaðila, sem fá þau skilaboð úr ráðuneytum, að aðhafast ekki þó að glæpurinn liggi fyrir. Eins og stundum í íslenska þagnarsamfélaginu: það er eitthvað í þessari sögu allri sem aldrei er beinlínis sagt – en allir skilja fyrr en skellur í tönnum. Svo skall í tönnum: Kastljós komst á snoðir um ósómann. Allt kom þetta á daginn í kjölfar makalausrar frásagnar þáttarins af áralöngum vörusvikum Brúneggja, sem selt hafa egg sín dýrum dómum undir merkjum vistvænnar framleiðslu, og við mörg keypt eggin í þeirri trú að fuglarnir nytu betra atlætis en annars staðar, þar sem þessi vottun er ekki. Framleiðslan hefur þvert á móti einkennst af þeirri rótgrónu hugmynd að skepnur séu bara efni í afurð, skynlausir massar, og hafi ekkert virði í sjálfum sér, eins og hverjar aðrar skrúfur á færibandi. Afleiðingin: alltof þröng búr með tilheyrandi vanlíðan og margs konar fylgikvillum; aðbúnaðurinn síst betri en í hefðbundnum eggjabúum, kannski verri. Þessi kaldrifjuðu svik, þar sem saman fer ill meðferð á dýrum og útmældar blekkingar gagnvart neytendum, hafa notið sérstakrar verndar í kerfinu, þar sem tveimur dýralæknum varð ekkert ágengt við að vekja athygli á málinu, sem skyldi tekið á í kyrrþey og djúpri þögn samkvæmt þeirri reglu að saklaus sé hver maður þar til upp um hann kann að komast. Heiðraðu skálkinn Þetta vitnar um hugsunarhátt sem verður til á löngum tíma í kerfi þar sem framleiðandinn nýtur fullrar verndar og allra réttinda en kaupandinn er réttlaus með öllu. Þetta er ekki vegna fúlmennsku viðkomandi eigenda – þeir eru börn kerfisins. Komið var á fót vottunarmerkingum um vistvæna framleiðslu og skyldi það vera á vegum búnaðarsamtakanna að hafa eftirlit með þeirri vottun. Lítið virðist hafa orðið úr því eftirliti, ef nokkuð: af hálfu búnaðarsamtakanna var nánast eins og litið á þessa vottun sem kænlega sölubrellu handa kjánunum í þéttbýlinu sem ganga um með sínar vistvænisgrillur. Neytendur eru að vísu yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, eiginlega öll þjóðin, en það er eins og enn eimi eftir af þeim hugsunarhætti að þeir séu nokkurs konar bráð, veiðistofn, auðlind. Af hverju er þetta svona? Allt breytist – en ekki samstundis, ekki jafnhliða. Hugsunarhættir sem fylgja horfnum þjóðfélagsháttum geta lúrt lengi í stofnunum og heilabúum samfélaga löngu eftir að þeir eru hættir að vísa á lifandi veruleika. Valdastofnanir lifa sjálfstæðu lífi löngu eftir að þær hafa orðið viðskila við umbjóðendur sína eða erindi: við sjáum þetta í stirðnuðum siðum sem fylgja trúarbrögðum, og voru einhvern tímann í samræmi við staðhætti, tæknistig og náttúrufar, en hafa fyrir löngu orðið að tæki til að heimta og mæla algjöra hlýðni, kúgunartæki. Stundum virðist manni að enn sé furðu ríkjandi víða í stjórnkerfi og hjá ráðandi öflum hér á landi þankagangur frá þeirri tíð þegar hér var nær algjört bændasamfélag; og fólk sem ekki var bændur var annars, þriðja og fjórða flokks. Maður veit að gott fólk er í bændastétt eins og annars staðar – og hugsar ekki svona – en þessi hugsunarháttur loðir samt enn við í kerfinu, eins og trénuð trúarbrögð. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun