Viðskipti erlent

Sífellt færri prófa ný snjallforrit

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Facebook og WhatsApp eru vinsæl snjallforrit.
Facebook og WhatsApp eru vinsæl snjallforrit. vísir/afp
Færri prófa ný snjallforrit fyrir síma (e. app) og neytendur halda sig við að nota þau forrit sem þeir eru nú þegar með. Þetta eru niðurstöður sem greiningardeild hugbúnaðarfyrirtækisins Adobe hefur birt.

Á meðal helstu niðurstaðna sem greiningardeildin komst að er að tuttugu prósent fleiri snjallforrit voru gefin út á öðrum ársfjórðungi þessa árs en á sama tímabili árið 2015. Hins vegar fjölgaði sóttum forritum einungis um sex prósent.

Þá segir í niðurstöðunum að fimm af hverjum tíu snjallforritum séu opnuð að meðaltali sjaldnar en tíu sinnum eftir að neytandi hefur halað þau niður í síma sinn. Þar af eru tvö af hverjum fimm einungis opnuð einu sinni.

Niðurstöðurnar byggja á 290 milljörðum heimsókna á yfir sextán þúsund vefsíður og á niðurhalstölum 85 milljarða snjallforrita.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×