Innlent

Eiríkur Bergmann: „Farið að glitta í stjórnarkreppu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að glitta sé farið í stjórnarkreppu eftir að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sleit stjórnarmyndunarviðræðum fyrr í dag.

Eftir nokkra daga viðræður á milli VG, Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar kom í ljós að of langt væri á milli í málefnum á borð við sjávarútvegs- og skattamálum og því var ákveðið að slíta viðræðunum.

Áður hafði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, freistað þess að mynda ríkisstjórn með Bjartri framtíð og Viðreisn án árangurs. Ljóst er að nú þarf að minnsta kosti þriðju tilraunina til að mynda ríkisstjórn og segir Eiríkur Bergmann að staðan í stjórnmálunum sé því flókin.

„Hún er orðin mjög snúin og þetta er orðið afar flókið. Tveir augljósustu kostirnir á borðinu eru núna fyrir bí. Núna tekur við meira skapandi vinna í stjórnmálunm heldur en að við höfum séð í langa tíð,“ segir Eiríkur Bergmann.

Katrín sagði að hún myndi hugsa um næstu skref í kvöld og í nótt áður en hún tæki ákvörðun um hvort hún myndi skila umboðinu aftur. Eiríkur segir að hún hafi enn nokkra kosti í stöðunni.

„Hún getur leitað til Sjálfstæðisflokksins og fengið þá með sér hugsanlega Bjarta framtíð sem er nokkuð sem sumir í Vinstri grænum gætu hugsað sér. Björt framtíð og Viðreisn eru auðvitað svolítið bundin saman, þá gæti Samfylkingin dugað inn í þetta,“ segir Eiríkur Bergmann.

Skili hún umboðinu reyni á Guðni Th. Jóhanesson, forseta Íslands og ekki sé víst hver myndi fá umboðið næst.

„Hann hefur veitt umboðið í stærðarröð og samkvæmt því ættu Píratar næst að fá umboðið. En síðan hefur Benedikt Jóhannesson beðið um umboðið. Hann gæti því leitað þangað,“ segir Eiríkur Bergmann sem útilokar ekki að VG leiti til Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir að Katrín hafi áður hafnað slíkum valkosti.

„Nú reynir á manninn, það er engin spurning. Það er farið að glitta í stjórnarkreppu í landinu. Það er ekki komin stjórnarkreppa. Katrín fær nóttina til að hugsa sig um hvort hún reyni áfram. Skili hún umboðinu á morgun þarf Guðni að meta stöðuna alveg upp á nýtt,“ segir Eiríkur Bergmann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×