Handbolti

Tapar Afturelding þriðja leiknum í röð?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar.
Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar. vísir/vilhelm
Tólfta umferð Olís-deildar karla hefst í kvöld með þremur leikjum.

Topplið Aftureldingar sækir Fram heim í Safamýrinni.

Eftir átta sigra í röð hafa Mosfellingar tapað síðustu tveimur leikjum sínum. Í síðustu umferð steinlágu þeir fyrir Haukum á heimavelli, 17-35. Þetta slæma tap þýðir að Afturelding er með mínús átta í markatölu þrátt fyrir að vera á toppnum.

Marga sterka leikmenn vantar í lið Aftureldingar en Mikk Pinnonen, Pétur Júníusson, Böðvar Páll Ásgeirsson og Birkir Benediktsson eru allir frá vegna meiðsla.

Fram hefur tapað tveimur leikjum í röð og situr í 8. sæti deildarinnar með níu stig.

Janus Daði Smárason mætir sínu uppeldisfélagi í kvöld.vísir/vilhelm
Stórleikur 12. umferðarinnar fer fram á Ásvöllum þar sem Íslandsmeistarar Hauka taka á móti Selfossi.

Liðin eru jöfn að stigum í 3.-4. sæti deildarinnar. Haukar unnu leik liðanna í 3. umferðinni, 31-34, og með sigri í kvöld tryggja þeir sér betri árangur í innbyrðis viðureignum liðanna.

Eftir slæma byrjun hafa Haukar verið á mikilli siglingu og unnið fjóra leiki í röð. Sóknarleikur Hauka hefur verið frábær að undanförnu en þeir hafa skorað 33,5 mörk að meðaltali í þessum fjórum sigurleikjum.

Selfoss, sem tapaði fyrir Val í síðustu umferð, er það lið sem hefur skorað mest í Olís-deildinni í vetur, eða 343 mörk í 11 leikjum.

Þónokkur tengsl eru á milli Hauka og Selfoss. Tveir markahæstu leikmenn Hauka í vetur, Janus Daði Smárason og Guðmundur Árni Ólafsson, eru báðir frá Selfossi og Árni Steinn Steinþórsson, leikmaður Selfoss, lék áður með Haukum. Þá hóf markvörðurinn efnilegi, Grétar Ari Guðjónsson, tímabilið í láni frá Selfossi en sneri svo aftur í Hauka eftir landsleikjahléið.

Halldór Sigfússon, þjálfari FH, var svekktur að hafa misst af sigrinum gegn Stjörnunni.vísir/anton
Í þriðja leik kvöldsins mætast FH og Grótta í Kaplakrika.

Það má búast við spennandi leik en tveir af síðustu fjórum leikjum FH hafa endað með jafntefli. Hinir tveir unnust með einu marki.

FH-ingar gerðu jafntefli, 22-22, við Stjörnumenn í síðustu umferð. Hafnfirðingar voru afar ósáttir við jöfnunarmark Stjörnumanna sem Garðar B. Sigurjónsson skoraði með skoti beint úr aukakasti.

Grótta vann leik liðanna í 3. umferðinni 30-24 en síðan þá hafa Seltirningar aðeins unnið einn af átta leikjum sínum.

Grótta er með níu stig í 7. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir FH sem er í því fimmta.

Á sunnudaginn mætast svo Akureyri og ÍBV fyrir norðan. Leik Vals og Stjörnunnar var frestað vegna þátttöku Valsmanna í Áskorendakeppni Evrópu en þeir mæta norska liðinu Haslum á laugardaginn. Leikur Vals og Stjörnunnar er settur á mánudaginn 12. desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×