Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa í alla nótt leitað manns sem gekk í gær til rjúpna austur á Héraði. Veður versnaði á leitarsvæðinu þegar líða tók á nóttina og urðu aðstæður erfiðar fyrir björgunarsveitarfólk. Þungfært var bæði fyrir ökutæki og gangandi leitarmenn.
Óþreytt björgunarsveitarfólk hefur tekið við af þeim sem hófu leitina. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti björgunarsveitamenn með sporhunda á leitarsvæðið og hafa björgunarsveitir allt frá Eyjafirði og suður til Öræfasveitar verið kallaðar út.
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út laust fyrir klukkan átta í í gærkvöldi til leitar að skyttunni. Maðurinn gekk til rjúpa frá sumarhúsabyggðinni í landi Einarsstaða á Héraði og óskað var eftir aðstoð þegar hann skilaði sér ekki til byggða fyrir myrkur.
Alls hafa um 200 björgunarsveitamenn tekið þátt í leitaraðgerðunum og eru fleiri í startholunum ef þörf krefur. Þá hefur Rauði krossinn sett upp aðstöðu í grunnskólum þar sem björgunarsveitarfólk getur hvílt sig milli leitarlota.
Rjúpnaveiðitímabilinu lýkur næstkomandi sunnudag, en um er að ræða tólf daga sem skiptast á fjórar helgar.
Rjúpnaskyttu leitað í alla nótt
Tengdar fréttir
Rjúpnaskyttu leitað á Austurlandi
Björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið kallaðar út til leitar að rjúpnaskyttu sem saknað er við Einarsstaði.