Innlent

Fimmtíu leitarmenn með hunda og tonn af björgunarbúnaði á leið austur

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Um 320 manns taka nú þátt í leitinni.
Um 320 manns taka nú þátt í leitinni. vísir/landsbjörg

Fimmtíu björgunarsveitarmenn fóru nú laust fyrir hádegi með flugi frá Reykjavík til Egilsstaða til þess að taka þátt í leit að rjúpnaskyttu sem staðið hefur yfir frá því í gærkvöldi. Einnig fóru þrír leitarhundar og 1,5 tonn af búnaði björgunarfólksins með vélinni.

Nú eru um 320 björgunarsveitarmenn á leitarsvæðinu. Svæðið er að sögn Landsbjargar erfitt yfirferðar og þar gengur á með dimmum éljum. Of mikill snjór er fyrir fjór- og sexhjól, en of lítill fyrir vélsleða. Leitarfólk hefur því farið um leitarsvæðið fótgangandi eða á þrúgum og skíðum.

Björgunarsveitir Landsbjargar voru kallaðar út laust fyrir klukkan átta í gærkvöldi til leitar að skyttunni. Maðurinn gekk til rjúpa frá sumarhúsabyggðinni í landi Einarsstaða á Héraði og óskað var eftir aðstoð þegar hann skilaði sér ekki til byggða fyrir myrkur. Ekki er hægt að notast við miðunarbúnað vegna farsíma, þar sem maðurinn var ekki með farsíma meðferðis.

Þrír leitarhundar fóru með vélinni laust fyrir hádegi í dag.vísir/landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×