Erlent

Hundruð flóttamanna drukknuðu í vikunni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Skelfing braust út þegar hópur fólks féll í hafið þegar verið var að bjarga þeim um borð í björgunarbjörgunarskip út af ströndum Líbíu.
Skelfing braust út þegar hópur fólks féll í hafið þegar verið var að bjarga þeim um borð í björgunarbjörgunarskip út af ströndum Líbíu. vísir/epa
Talið er að um 240 flóttamenn hafi drukknað í Miðjarðarhafi í gær og fyrradag út af ströndum Líbíu.

Fólkið er sagt hafa verið um borð í tveimur bátum sem báðum hvolfdi. Fréttir af þessu bárust með öðru flóttafólki sem bjargað var úr hafinu og var flutt til ítölsku eyjunnar Lampedusa.

Um hundrað þeirra drukknuðu á miðvikudag þegar upplásinn gúmmíbátur sökk. Annar gúmmíbátur fórst síðan í gærmorgun og þar er talið að um 140 manns hafi látið lífið.

Af fyrri bátnum björguðust 29 manns en aðeins tveir lifðu af seinna slysið, svo vitað sé.

Alls hafa þá meira en 4.200 drukknað í Miðjarðarhafi það sem af er þessu ári í tilraun til að komast yfir til aðildar­ríkja Evrópusambandsins, ýmist frá Tyrklandi eða frá norðurströnd Afríku.

Á síðasta ári er talið að nærri 3.800 hafi drukknað þar í hafinu en árið 2014 voru það nærri 3.300 manns.

Hernaðaraðgerðir Evrópusambandsins gegn smyglurum, sem reyna að koma fólki ólöglega yfir hafið, hafa orðið til þess að mennirnir eru að mestu hættir að senda fólk með trébátum út á Miðjarðarhaf. Í staðinn er nánast eingöngu notast við uppblásna gúmmíbáta sem eru enn hættulegri farartæki. Yfirleitt fylgir enginn flóttafólkinu þannig að það þarf sjálft að sjá um að stýra bátunum yfir hafið. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×