Viðskipti erlent

Toblerone neytendur niðurbrotnir eftir umdeildar breytingar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Toblerone eftir breytingarnar sem sumir gætu haldið að væru 1. apríl brandari.
Toblerone eftir breytingarnar sem sumir gætu haldið að væru 1. apríl brandari. Mynd af vefsíðu Toblerone
Óhætt er að segja að framleiðendur súkkulaðisins Toblerone séu í skotlínunni eftir umdeildar breytingar á súkkulaðinu þrýhyrningslaga. Breytingin er tilkomin vegna aukins framleiðslukostnaðar að sögn framleiðandans, Mondelez International, en nú er meira bil á milli hvers bita eins og sjá má á myndinni að ofan. 

Breskir fjölmiðlar fjalla allir sem einn um málið í dag sem virðist ekki vekja minni athygli á Bretlandseyjum en fréttir af kjördegi í Bandaríkjunum þar sem úrslitin munu ráðast í forsetakosningunum vestanhafs.

Sumir neytendur eru allt annað en sáttir við breytinguna sem er takmörkuð við tvær stærðir af súkkulaðinu, til að byrja með að minnsta kosti, og aðeins í Bretlandi. Eftir breytingarnar er 400 gramma súkkulaðið nú 360 grömm og 170 gramma súkkulaðið 150 grömm.

„Við ákváðum að breyta útlitinu til þess að neytendur hefðu enn efni á að kaupa vöruna,“ segir í svari á Facebook-síðu Toblerone þar sem mikil umræða hefur skapast um breytinguna. Telja margir að betri lausn hefði verið að sleppa einum bita heldur en að breyta framsetningu vörunnar á þennan hátt.

Verðið er fyrir vikið óbreytt en fólk fær minna súkkulaði en áður fyrir peninginn. Framleiðandinn segir að veikari staða pundsins sé vissulega hluti af vandamálinu en vill þó ekki kenna ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu um. 

Að neðan má sjá viðbrögð breskra netverja við tíðindunum af nýja Toblerone-inu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×