Innlent

Heimsóttu Carter og fagna með Hillary

Þorgeir Helgason skrifar
Jimmy Carter og eiginkona hans Rosalynn Carter með Ólafi og Arnóri.
Jimmy Carter og eiginkona hans Rosalynn Carter með Ólafi og Arnóri. Mynd/Arnór Gunnar Gunnarsson

Arnór Gunnar Gunnarsson sagnfræðinemi og Ólafur Kjaran Árnason hagfræðinemi hittu Jimmy Carter, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, á dögunum. Þeir Arnór og Ólafur hafa verið á ferðalagi um Bandaríkin að undanförnu til þess að kynna sér baráttuna í forsetakosningum Bandaríkjanna.

Það var í Maranatha-baptistakirkjunni í Plains í Georgíuríki sem Arnór og Ólafur hittu hinn aldna fyrrverandi forseta. Carter hefur annast sunnudagaskóla í kirkjunni um langt skeið. „Við fórum sem sagt í sunnudagaskólann og það var gríðar­leg öryggisgæsla í og við kirkjuna, leyniþjónustumenn á hverju strái. Carter ræddi kosningabaráttuna og sagðist telja að bandaríska þjóðin hafi ekki verið jafn klofin síðan í borgarastríðinu,“ sagði Arnór í samtali við Fréttablaðið. Hann segir þeim hafa boðist að fá mynd af sér með Carter að athöfninni lokinni.

„Þetta var áhugaverð upplifun og merkilegt að sjá hvað Carter er skýr í kollinum þrátt fyrir háan aldur en hann er 92 ára,“ sagði Arnór.

Arnór og Ólafur hófu ferð sína í Houston í Texas en ferðalaginu lauk í gærkvöldi þar sem þeir sóttu lokahóf Hillary Clinton í New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×