Erlent

Danska lögreglan fann lík móður og tveggja dætra í frysti

Atli Ísleifsson skrifar
Um 21 þúsund flóttamenn komu til Danmerkur á síðasta ári.
Um 21 þúsund flóttamenn komu til Danmerkur á síðasta ári. Vísir/AFP
Lögregla í Danmörku hefur fundið lík myrtrar konu og tveggja dætra hennar í frysti í íbúð þeirra í Aabenraa á Suður-Jótlandi. Mikil leit stendur nú yfir að föður stúlknanna.

Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að fórnarlömbin og grunaði árásarmaðurinn séu sýrlenskir flóttamenn. Móðirin var 27 ára gömul og stúlkurnar sjö og níu ára gamlar.

Leit var gerð að fórnarlömbunum eftir að ættingi sagðist ekki hafa heyrt í þeim í nokkra daga. „Lögregla fór inn í íbúðina og fann þrjú lík í frystinum,“ sagði í yfirlýsingu sem lögregla sendi frá sér í dag.

„Eiginmaður fórnarlambsins og faðir barnanna var ekki í íbúðinni og við leitum hans,“ sagði enn fremur í yfirlýsingunni.

Ekki hefur tekist að ákvarða hvað þau hafa verið lengi látin, en fjölskyldan kom til Danmerkur á síðasta ári.

Um 21 þúsund flóttamenn komu til Danmerkur á síðasta ári, en verulega hefur dregið úr straumi flóttamanna til landsins eftir að landamæraeftirliti var komið á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×