Viðskipti erlent

Apple frestar útgáfu þráðlausu heyrnartólanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/Getty
Apple hefur þurft að fresta útgáfu Airpods, þráðlausu heyrnartólanna, sem kynnt voru til leiks samhliða iPhone 7 síma fyrirtækisins í september. Fyrirtækið segir að heyrnartólin séu ekki tilbúin til sölu.

„Við trúum ekki á það að gefa út vöru áður en hún er tilbúin. Við þurfum aðeins meiri tíma fyrir AirPods,“ sagði talsmaður Apple án þess að gefa nánari skýringar.

Upphaflega var stefnt að því að heyrnartólin kæmu á markað í þessum mánuði. Ekki hefur verið gefið út hvenær heyrnartólin koma á markað.

Sjaldgæft er að Apple lendi í vandræðum með að gefa út vörur sem þeir hafa áður auglýst. Er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2011 sem slíkt gerist en þá komu upp vandræði með hvítu útgáfu iPhone 4. Kom hún út nokkrum mánuðum síðar en áætlað var vegna framleiðsluvandamála.

Airpods vöktu mikla athygli þegar þau voru kynnt til sögunnar enda er ekkert tengi fyrir heyrnartól á iPhone 7 símum Apple. Neyðast því margir til þess að nota þráðlaus heyrnartól í takt við iPhone 7 síma sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×