Þýski bankarisinn Deutsche Bank hagnaðist um 278 milljónir evra, jafnvirði 34,6 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Um var að ræða verulegan viðsnúning en á sama tímabili í fyrra tapaði bankinn 6 milljörðum evra, 746 milljörðum króna.
Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hefur Deutsche Bank átt í miklum rekstrarerfiðleikum síðastliðið árið. Forsvarsmenn Deutsche Bank segja að erfitt vaxtaumhverfi og áhrif af himinhárri sekt bandarískra stjórnvalda á hendur bankanum hafi haft áhrif á reksturinn. Enn á eftir að semja um endanlega upphæð sektarinnar, en fyrst var tilkynnt um 14 milljarða dollara sekt, jafnvirði 1.600 milljarða króna.
Bankinn hefur verið að skera niður rekstrarkostnað sem og að selja eignir til að róa fjárfesta. Sala jókst um 2 prósent hjá Deutsche á fjórðungnum og nam 7,6 milljörðum evra, jafnvirði 944 milljarða íslenskra króna, á fjórðungnum. Þetta var betra en fjárfestar áttu von á.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Deutsche hagnast þrátt fyrir erfiðleika
