Erlent

Sýrlendingur sem grunaður var um skipulagningu á sprengjuárás fannst látinn í fangaklefa

Birgir Olgeirsson skrifar
Það voru sýrlenskir flóttamenn sem fóru með manninn á lögreglustöð á mánudag en þá hafði hann verið á flótta undan yfirvöldum í Þýskalandi í tvo daga.
Það voru sýrlenskir flóttamenn sem fóru með manninn á lögreglustöð á mánudag en þá hafði hann verið á flótta undan yfirvöldum í Þýskalandi í tvo daga. Vísir/EPA
Sýrlenskur karlmaður, sem grunaður er um að hafa verið með sprengjutilræði í Berlín í undirbúningi, fannst látinn í fangaklefa sínum í Leipzig í Þýskalandi.

Þetta kemur fram á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en þar er haft eftir talsmanni hjá dómsmálaráðuneytinu að rannsókn sé hafin á dauða mannsins sem var 22 ára og hét Jaber al-Bakr.

Það voru sýrlenskir flóttamenn sem fóru með manninn á lögreglustöð á mánudag en þá hafði hann verið á flótta undan yfirvöldum í Þýskalandi í tvo daga.

Lögreglan í Þýskalandi hafði verið með manninn undir eftirliti í nokkra mánuði. Hún hafði ráðgert að handtaka hann á heimili hans síðastliðinn laugardag náði ekki að hafa upp á honum.

Frá því að hann var afhentur yfirvöldum hafði Jaber al-Bakr verið í hungurverkfalli en hann var undir eftirliti fangavarða allan sólarhringinn.

Hann hafði fengið hæli í Þýskalandi eftir að hafa komið inn í landið í fyrra.

Þýska leyniþjónustan hafði fengið upplýsingar um að hann væri mögulega með árás í undirbúningi og var haft samband við lögregluna í kjölfarið.

Lögreglan greindi síðar fjölmiðlum frá því að við rannsókn á al-Bakr hafði komið í ljós að hann hafði fengið upplýsingar um hvernig búa á til sprengju á netinu og hafði komist yfir sprengiefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×