Enski boltinn

Gerrard valinn bestur framyfir Giggs og Ronaldo

Smári Jökull Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Ryan Giggs mættust í ófá skiptin á sínum tíma.
Steven Gerrard og Ryan Giggs mættust í ófá skiptin á sínum tíma.
Steven Gerrard fékk flest atkvæði þegar áhorfendur Sky Sports gátu kosið á milli 50 leikmanna Liverpool og Manchester United um hver væri besti leikmaður liðanna frá upphafi.

Mikil spenna er fyrir leik Liverpool og Manchester United á Anfield annað kvöld. Sky Sports setti saman lista yfir 50 bestu leikmenn liðanna frá upphafi þar sem hvort lið átti 25 leikmenn. Hægt var að kjósa á heimasíðu Sky Sports og er óhætt að segja að niðurstöðurnar séu áhugaverðar.

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool til margra ára, fékk flest atkvæði allra eða 49.000 talsins og fast á hæla honum kom Luis Suarez með yfir 40.000 atkvæði.

Cristiano Ronaldo og Paul Scholes koma í næstu sætum þar á eftir en athygli vekur að Ryan Giggs sem varð Englandsmeistari í alls þrettán skipti með United er aðeins í 5.sæti í könnuninni en hann var valinn rúmlega 30.000 sinnum af lesendum Sky Sports í þessari könnun.

Philippe Coutinho, Daniel Sturridge, Michael Carrick og Lucas Leiva eru einu leikmennirnir á listanum sem enn eru að spila með liðunum.

Athygli vekur að Jamie Carragher endar sjö sætum fyrir ofan félaga sinn Gary Neville en þeir hafa verið sérfræðingar hjá sjónvarpsstöðinni í nokkur ár og átt margar eftirminnilegar umræður um ensku deildina, ekki síst um liðin sem þeir léku með til fjölda ára.

Leikur Liverpool og Manchester United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 19:00 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×