Ronda Rousey mun snúa aftur í búrið á nætsíðasta degi ársins og margir gleðjast. Þar á meðal Conor McGregor.
Ronda hefur ekki barist síðan Holly Holm rotaði hana fyrir ellefu mánuðum síðan. Hún mun nú mæta Amöndu Nunes í bardaga um bantamvigtarbeltið sem hún tapaði gegn Holm.
„Ég er mjög spenntur. Það er frábært að fá hana loksins til baka á ný. Töp geta haft mikil áhrif á okkur sem erum í þessum bransa. Sérstaklega fyrir okkur sem erum efst á toppnum,“ sagði írski ruslakjafturinn.
„Ég vona að hún hafi fengið einhvern innblástur er hún sá hvernig ég kom til baka á árinu. Ég óska henni alls hins besta. Hún er frábær bardagakona og ég hlakka til að sjá hana berjast.“
Conor og Ronda eru án vafa langstærstu stjörnurnar í UFC-heiminum. Margir hafa gagnrýnt hana og talað niður til hennar síðustu daga.
„Mitt ráð til hennar er að mæta í búrið og þagga niður í öllum. Mættu og sýndu þeim að þú eigir beltið skilið.“
